Rapparinn Emmsjé Gauti er tilbúinn að fara alla leið með jólatónleika sína, Jülevenner í Gamla bíói. Hann leitar nú að óléttum konum sem eru settar á Þorláksmessu í von um að þær þiggi miða á tónleikana og eignist lítið jólabarn rétt eftir miðnætti.
„Það væri ekkert fallegra né jólalegra en að það myndi lítið Jülebarn fæðast rétt eftir miðnætti,“ segir hann en konur sem hafa áhuga á þessu kostaboði fá miða á tónleikana klukkan 23 á Þorláksmessu.
En Gauti, ertu ekki að grínast?
„Ég er ekki að grínast. Samt. Samt ekki. Ég mun í kjölfarið bjóða lækni og ljósmóður á svæðið líka til þess að hafa öryggisatriðin á hreinu,“ segir hann í samtali við Nútímann.
Ég er sjálfur með skyndihjálparnámskeið á bakinu eftir að ég var í Skátafélaginu Segli en mun þó þurfa að rifja upp gömlu taktana þar sem ég hætti í Skátunum fyrir næstum því 20 árum.
Miðasala á tónleikana fer fram á Tix.is. Á Þorláksmessutónleikunum kemur Emmsjé Gauti fram ásamt Aroni Can, Jóa Pé og Króla, Sölku Sól, Bartónum, Jóni Svavari og sérstökum leynigesti.