Auglýsing

Emmsjé Gauti maður kvöldsins á Íslensku tónlistarverðlaununum

Emmsjé Gauti var maður kvöldsins á Íslensku tónlistarverðlaununum sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Silfurbergi Hörpu í kvöld. Gauti hlaut alls fimm verðlaun en rapparinn hafði verið til­nefndur til níu verðlauna.

Gauti hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins, lagahöfundur ársins, textahöfundur ársins, lagið Silfurskotta sem hann flytur með Aroni Can var valið rapplag ársins og að lokum var breiðskífan Vagg & velta valin plata ársins í rappi og hip hop en þetta er í fyrsta sinn sem plata er verðlaunuð í þessum flokki.

Kaleo hlaut tvenn verðlaun á hátíðinni en platan þeirra A/B var valin rokkplata ársins og Jökull Júlíusson fékk verðlaun sem söngvari ársins í flokki popp og rokktónlistar. Samaris hlaut einnig tvenn verðlaun en plata sveitarinnar Black Lights var valin raftónlistarplata ársins og Jófríður Ákadóttir söngkona sveitarinnar var valin söngkona ársins.

Poppplötu ársins átti Júníus Meyvant en plata hans Floating Harmonies einkennist af sterkum lagasmíðum og ferskleika að mati dómnefndar.

Lög ársins í flokki popp og rokktónlistar voru annars vegar smellur Hildar I’ll Walk With You sem var valið popplag ársins og hins vegar hin sterka ádeila Valdimars, Slétt og fellt, sem var valið rokklag ársins.

Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raf var tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 og fór vefkosning fram til að velja verðlaunahafann. Það var Auður, Auðunn Lúthersson, sem hlaut heiðurinn í ár en hann hefur vakið athygli fyrir silkimjúka R&B tónlist og nýstárlegar leiðir í útgáfu á tónlist sinni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing