Auglýsing

Engin æla fannst í rauða bílaleigubílnum en mjög mikið af blóði

Engin æla fannst í rauða Kia Rio-bílnum sem Thomas Møller Olsen var með á leigu þegar Birna Brjánsdóttir var myrt. Thomas hélt því fram við skýrslutökur í Héraðsdómi Reykjaness í gær að ælt hefði verið í bílinn. Mikið blóð úr Birnu fannst hins vegar í bílnum en Thomas gat ekki útskýrt af hverju.

Sjá einnig: Enn þá óljóst hvað gekk á í rauða bílnum sem endaði með morðinu á Birnu

Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, bar vitni í Héraðsdómi Reykjaness morgun. Hann sagði að mikið magn blóðs hafi fundist í bílnum og að það hafi slegið hann hversu sýnilegt það var.

Hann sagði mjög, mjög ólíklegt að einhver hafi setið í aftursæti bílsins þegar árásin átti sér stað. Þá sagði hann að þrátt fyrir ýtarlega rannsókn hafi engin æla fundist í bílnum.

Við skýrslutökur í gær kom fram að Thomas hafi sagt að ælt hafi verið í bílinn. Nikolaj Olsen kannaðist ekki við það. Þá kom fram að Thomas hafi þrifið bílinn í hádeginu daginn sem Birna var myrt. Thomas sagðist í gær ekki hafa fundið neitt blóð í bílnum, bara ælu. „Ég fann ekkert rautt. Bara brúnt,“ sagði hann.

Skipverjinn Inuk Kristiansen fór svo með honum að skila bílnum og sagði í gær að hann hefði fundið einhverja lykt sem erfitt væri að lýsa. Inuk hafði skilið úlpuna sína eftir í bílnum á föstudeginum en hann fékk hana aftur frá Thomasi á laugardeginum. Hann sagði að þá hafi verið búið að þrífa hana og þurrka. Thomas sagði honum að kona hafi ælt á úlpuna og þess vegna hafi hann ákveðið að þrífa hana.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing