Albanskur glæpahópur sem starfar hér á landi er ekki talin tengjast andláti tíu ára stúlku sem fannst látin við Krýsuvíkurveg þann 15. september síðastliðinn en faðir stúlkunnar, Sigurður Fannar Þórsson, hringdi í Neyðarlínuna þennan örlagaríka dag og sagðist hafa orðið dóttur sinni að bana. Nútíminn greindi fyrstur frá því að um feðgin væri að ræða en faðir stúlkunnar hefur áður komið við sögu lögreglu og fengið dóm fyrir fíkniefnainnflutning.
„Rannsókn Nútímans hefur leitt það í ljós að vel yfir 85% af fíkniefnamarkaðnum á Íslandi er stjórnað af erlendum glæpasamtökum.“
Háværar kjaftasögur hafa gengið manna á milli um hvernig andlát stúlkunnar bar að garði. Sú saga sem hefur verið hvað langlífust er á þá leið að hingað hafi komið menn á vegum albanskra glæpahópa bara í þeim tilgangi að myrða dóttur mannsins. Það hafi verið vegna þess að Sigurður Fannar hafi skuldað töluverða fjármuni vegna viðskipta með kókaín. Nútíminn vill vara við þeim lýsingum sem birtast hér fyrir neðan. Ástæða þess að miðillinn ákvað að skrifa um þessa ákveðnu kjaftasögu er sú staðreynd að fjöldi fólks hefur haft samband við Nútímann með ábendingar sem eru allar á þessa leið.
Leigumorðingar og bílaleigubíll
Mennirnir eru sagðir tveir og að þeir hafi flogið af landi brott sama dag og 10 ára íslenska stúlkan var myrt. Þeir eru sagðir hafa sótt föðurinn og dóttur hans á bílaleigubíl og keyrt þau í átt að Krýsuvík þar sem stúlkunni var ráðin bani með hamri fyrir framan föður sinn. Hann hafi svo verið skilinn eftir á svæðinu með þau skilaboð að ef hann myndi ekki taka á sig morðið á eigin dóttur yrðu önnur börn tengd honum og jafnvel ættingjar drepnir. Til þess að renna stoðum undir þessar útskýringar og aðdraganda var bent á þá staðreynd, sem hefur komið fram í fjölmiðlum, að faðir stúlkunnar vissi ekki nákvæmlega hvar hann var þegar hann hringdi í Neyðarlínuna. Þá er faðirinn sagður hafa verið bíllaus.
Nútíminn hafði samband við Grím Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna málsins og spurði einfaldlega hvort að einhver bíll hafi fundist á svæðinu og svo reyndist vera. Bifreið sem faðir stúlkunnar hafði til umráða fannst rétt hjá þeim stað þar sem stúlkan fannst látin. Þá hefur lögreglan farið yfir fjölmörg myndskeið sem tekin voru á leiðinni út að Krýsuvík og ekkert hafi komið upp úr þeirri rannsókn sem styður við þá sögu sem hér er sögð.
Ísland er draumaland erlendra glæpasamtaka
En það ætti ekki að koma neinum á óvart að andlát stúlkunnar hafi verið tengt við albanska glæpahópa því staðreyndin er sú að fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi var færður þessum erlendu glæpahópum á silfurfati með aðgerðum lögreglunnar síðustu tvö ár. Rannsókn Nútímans hefur leitt það í ljós að vel yfir 85% af fíkniefnamarkaðnum á Íslandi er stjórnað af erlendum glæpasamtökum. Á undanförnum tveimur árum hafa íslensk lögregluyfirvöld handtekið, yfirheyrt og fengið dæmda alla helstu leikmenn í hinum íslensku „undirheimum“ – ef svo mætti að orði komast. En þar sem er eftirspurn er framboð.
Stríðið gegn fíkniefnum í heimunm er löngu tapað og þar er Ísland engin undantekning. Erlendir glæpahópar hafa því í auknum mæli beint sjónum sínum að Íslandi – sérstaklega í ljósi þess að Albanir eru á sérstakri undanþágu sem gerir þeim kleyft að ferðast innan þeirra landa sem eru í Schengen og dvelja þar frá 90 og upp í 180 daga án nokkurs eftirlits.
Schengen-svæðið er svæði í Evrópu þar sem fólk getur ferðast á milli landa án þess að þurfa að fara í gegnum venjulegt vegabréfaeftirlit við landamærin. Þetta þýðir að ef þú ert kominn inn í eitt Schengen-land, þá geturðu ferðast frjálslega til annarra Schengen-landa eins og það væri innanlands. Svæðið var stofnað til að auðvelda ferðalög og viðskipti á milli aðildarlanda.
Þetta á við um flest lönd í Evrópusambandinu en líka nokkur lönd sem eru ekki í sambandinu, eins og Noregur, Sviss og Ísland. Vegabréfaeftirlit er hins vegar ennþá til á ytri landamærum svæðisins, þ.e.a.s. þegar þú kemur til eða ferð út úr Schengen-svæðinu.
Í stuttu máli: Schengen-svæðið gerir fólki kleift að ferðast milli margra Evrópulanda án þess að þurfa að sýna vegabréf á mörgum landamærum.
Það sem vekur athygli í þessu öllu saman – og virðist hafa vakið athygli út fyrir landsteinana og alla leið til Albaníu – er að íslensk yfirvöld hafa svo gott sem ekkert beint sjónum sínum að þessum erlendu glæpasamtökum sem hér starfa. Sú ályktun er í raun dregin út frá þeirri staðreynd að allir þeir sem hafa verið handteknir og dæmdir hér á Íslandi fyrir skipulagða glæpastarfsemi eða stórfelldan innflutning á fíkniefnum eru af íslensku bergi brotnir. Hvort það sé skortur tungumálakunnáttu hjá íslensku lögreglunni eða almennt áhugaleysi verður að liggja á milli hluta…í bili.
Óhugsandi glæpur á Íslandi
En aftur að þessu hræðilega kvöldi þann 15. september. Grímur Grímsson steig fram í dag í viðtölum, bæði við DV og Vísi, þar sem hann í raun vísaði á bug þessum kjaftasögum. Tenging við erlenda glæpahópa og að mögulega hafi einhver annar en faðir stúlkunnar ráðið henni bani virðist ekki halda vatni. Að minnsta kosti segir Grímur að ekki sé talið að nokkuð annað bendi til aðkomu annarra en föður stúlkunnar.
Sú yfirlýsing yfirmanns hjá lögreglunni, og þeim sem sér um rannsóknina á þessu andláti, er í sjálfu sér erfitt að kyngja – það hefur þótt auðveldara að tengja þetta við albanska glæpahópa enda er verknaður sem þessi algjörlega óhugsandi fyrir „venjulegt fólk.“ Hver gæti myrt sitt eigið barn á Íslandi, úti í hrauni og svo hringt sjálfur á lögregluna.
Svör við þessum spurningum fást ekki fyrr en rannsókn málsins lýkur en samkvæmt fréttum íslenskra miðla í dag þá telur Grímur að rannsókn málsins verði lokið eftir sjö vikur. Henni miði vel og þá ítrekaði hann að „…við teljum okkur vera með nokkuð góða mynd af því sem þarna gerðist.“