Í upphafi gossins opnaðist gossprungan á milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks líkt og í síðustu eldgosum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Fyrstu klukkustundir gossins lengdist sprungan stöðugt í norðaustur frá Stóra-Skógfelli þar til á milli kl. 5 og 6 í morgun. Á sama tíma og gosvirknin færðist norðaustur þá dró úr virkninni á suðurhlutanum og gýs nú á sprungu á svæðinu frá Stóra-Skógfelli og þaðan til norðaustur í um 2-3 km.
Gossprungan töluvert norðar en fyrri sprungur
Gossprungan sem nú er virk nær nokkuð norðar heldur en í þeim eldgosum sem hafa orðið síðan í desember 2023 á þessu svæði. Þegar virkni á gossprungunni færðist norðar hægði á hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi norðan Svartsengis. Meginstraumur hraunflæðis er því til norðvesturs norðan Stóra-Skógfells.
Samhliða því að gossprungan lengdist mældist töluverð skjálftavirkni og aflögun í kringum gossprunguna. Eftir klukkan 4 í morgun dró verulega úr skjálftavirkni og hægðist sömuleiðis á aflögun, sem passar vel við þróun gossprungunnar. Þrátt fyrir að dregið hafi úr hraða aflögunar mælist hún þó enn.