Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Fredrik Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Á meðal þeirra sem gáfu skýrslu voru Thomas sjálfur og Nikolaj Olsen, sem var grunaður um aðild í málinu í upphafi en var síðar sleppt. Ljóst er eftir daginn að enn þá er fullkomlega á huldu hvað gekk á í rauða Kia Rio-bílaleigubílnum sem endaði með því að ráðist var á Birnu Brjánsdóttur og hún myrt.
Eitt af því sem stendur upp úr eftir daginn er að Thomas hefur umturnað framburði sínum og gaf í skyn að Nikolaj hefði verið sá síðasti sem sá Birnu á lífi. Hann sagði að Nikolaj hefði ekið á brott með stúlkunni eftir að þau voru komin til Hafnarfjarðar og sagst vilja eyða tíma með henni í einrúmi. Thomas sagði að Nikolaj hefði snúið til baka án stúlkunnar.
Nikolaj sagðist ekki muna eftir því að hafa beðið um að vera einn með stúlkunni. Spurður hvort hann hafi gert henni eitthvað svaraði hann neitandi. „Ég held ég hafi ekki snert hana.“
Minnisleysi Nikolaj var raunar rauður þráður í gegnum skýrslutöku hans við Héraðsdóm í dag. Hann mundi ekki mikið eftir seinni hluta kvöldsins og nóttinni en hafnaði því að hafa keyrt bílinn enda hafi hann aldrei lært að keyra bíl og því ekki með bílpróf. Nikolaj segist hafa verið sofandi í bílnum.
Það liggur fyrir að lögregla fann blóð úr Birnu í rauða Kia Rio-bílaleigubílnum. Leifur Halldórsson rannsóknarlögreglumaður sagði ljóst að átök höfðu átt sér stað inni í bílnum.
Thomas viðurkennir að hafa þrifið bílinn að innan en sagðist í dag hafa verið að þrífa upp ælu. Úlpa frá þriðja skipverjanum, Inuk Kristiansen, var í aftursæti bílsins á meðan Thomas, Nikolaj og Birna voru í bílnum og þegar Thomas skilaði honum úlpunni var hann búinn að þrífa hana. Inuk sagði Thomas hafa gefið þær skýringar á því að konan hafi ælt á úlpuna. Þá sagði Inuk að Thomas hafi sagst hafa kysst stúlkuna í bílnum.
En af hverju ákvað lögregla að útiloka Nikolaj sem sakborning í málinu?
Rannsóknarlögreglumaðurinn Leifur sagði í Héraðsdómi í dag nokkrar ástæður fyrir því:
- Nikolaj sést fara upp í Polar Nanoq á myndskeiðunum við höfnina. Eftir það sést Thomas aka bílnum út á höfnina og sagðist einnig hafa talað við stúlkurnar, sem hann sagði reyndar í fyrstu að hafi verið tvær.
- Allir sem hittu Nikolaj í Reykjavík sögðu að hann hafi verið ofurölvi og hálfmeðvitundarlaus.
- Engin lífsýni fundust á fatnaði Nikolaj en lífsýni fundust hins vegar á úlpu Thomasar.
Leifur sagði að Thomas hafi gefið mjög greinargóðar og skýrar lýsingar á atburðum næturinnar þangað til honum hafi fundist óþægilegt að ræða þá. „Hann virtist muna það sem hann vildi muna,“ sagði Leifur.
Talandi um lífsýni. Thomas gat ekki útskýrt af hverju lífsýni úr honum hafi fundist á reimunum á skóm Birnu. Klórför og rispur fundust á honum við læknisskoðun en hann útskýrði það þannig að hann klóri sig í svefni. Þá sagði skipverjinn Nick Petersen að Thomas hafi um borð í Polar Nanoq sýnt öðrum skipverjum hægri handlegg sinn og spurt hvort hann væri með marblett. Nikolaj var einnig með áverka á hnúum á vinstri hendi en var ekki spurður út í þá af lögreglu.
Hvorki Thomas né Nikolaj lýstu í dag hvað gerðist í bílnum sem endaði með morðinu á Birnu. Thomas neitar sök en Nikolaj segist ekkert muna. Réttarhöldum verður haldið áfram á morgun.