Snapparinn vinsæli Viðar Skjóldal eða Enski eins og hann kallar sig lætur gagnrýni og leiðindi ekkert á sig fá. Hann opnar sig um málið á Snapchat í dag og segir að nokkrir aðilar á Twitter hafi stundað það að drulla yfir sig. Gagnrýni truflar hann þó lítið en honum þykir leiðinlegt að þetta hafi áhrif á fjölskyldu sína.
Viðar segir í samtali við Nútímann að Snapchat aðgangurinn hans hafi stækkað mjög hratt að undanförnu og hann komist varla yfir það að svara póstum frá fólki. „Snappið mitt hefur fimmfaldast í stærð á síðustu fimm vikum og í dag eru um sex þúsund manns að skoða story hjá mér daglega,“ segir hann.
Enski fer yfirleitt yfir fréttir dagsins á Snapchat en í dag lét hann þau sem hafa talað illa um sig heyra það. „Afhverju talið þið ekki bara við mig persónulega og sendið mér póst, þetta eru pappakassar sem þora því ekki.“ Þá sagðist Enski fá mörg hundruð hrós á dag og hreinlega hlæja að þessu.
Aðrir snapparar höfðu varað Enska við því að með auknum vinsældum kæmu athugasemdir og leiðindi. Hann var undir það búinn og býður fólki sem hefur áhuga á því að tala illa um sig að gera það við hann í eigin persónu. „Þetta er svona eitt prósent af fókinu — hin 99 prósent elska mig,“ segir hann.
„Ef fólk vill drulla yfir mig þá er það velkomið. Ég skil bara ekki af hverju fólk talar bara ekki beint við mig.“