Auglýsing

Er þetta stærsti grillaði hamborgari Íslandssögunnar? „Einn besti hamborgari sem við höfum smakkað“

Félagarnir Alfreð Fannar Björnsson og Atli Kolbeinn Atlason tóku sig til í vikunni og grilluðu hamborgara sem gæti verið sá stærsti í Íslandssögunni. Hamborgarinn var rúmlega 17 kíló á þyngd og það tók tólf tíma með öllu að koma honum saman.

Alfreð Fannar, eða Alli eins og hann er kallaður, sýndi frá öllu saman á Snapchat þar sem hann kallar sig Alli-tralli og hefur getið sér gott orð fyrir grillmennsku sína. Hann segir í samtali við Nútímann að markmiðið hafi ekki aðeins verið að láta hann bragðast vel — hann þurfti líka að líta vel út.

„Ég og Atli vinur minn vorum eitthvað að hugsa um að gera stærsta grillaða hamborgara sem gerður hefur verið á Íslandi,“ segir hann.

„Við byrjuðum aðeins að grúska í þessu og hugsa um að við vildum ekki bara hrúga einhverju á hann, heldur vildum við láta hann líta vel út þannig við höfðum samband við Gæðabakstur með brauðið, Kjötkompaní með hakkið og svo Weber á Íslandi til að lána okkur eitt grill til viðbótar því auðvitað varð hann að vera kolagrillaður.“

Alli segir þá félaga hafa notað heil átta kíló af nautahakki í borgarann og út í það bættu þeir átta eggjum og 100 grömmum af hveiti til að binda það saman. Í sósuna fóru 1.800 grömm af majónesi, stór krukka af súrum gúrkum, hálfur hótellaukur og hálf krukka af Dijon-sinnepi.

Á borgarann fór svo 3.150 grömm af þykku beikoni, 20 tómatar, þrjár dósir af súrum gúrkum, fjórir hótellaukar og sex pottar af salati. Loks var brauðuð samtals 3,8 kíló. „Þau voru bökuð þannig að neðsta brauðið var þyngst og stærst til þess að þola alla þessa þyngd,“ útskýrir Alli og bætir við að brauðin hafi svo orðið léttari eftir því sem þeim var raðað ofar.

Markmiðið var að gera 20 kílóa hamborgara og með öllu varð þessi risi 17,545 kíló. En hvernig smakkaðist?

„Ég verð að segja það að þetta var einn besti hamborgari sem við höfum smakkað enda allt hráefni alveg í hæsta gæðaflokki!“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing