Formleg kveðjuathöfn á jöklinum Ok í Kaldadal hefur vakið heimsathygli. Miðlar á borð við BBC, AP og Buzzfeed hafa fjallað um málið. Ok er fyrsti íslenski jökullinn sem hverfur vegna loftslagsbreytinga.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á staðnum þegar jökullinn var formlega kvaddur og hún hvatti til aðgerða í loftslagsmálum.
„En í dag rísum við líka upp, efldari en nokkru sinni í baráttunni fyrir náttúrunni. Við stöndum frammi fyrir fordæmalausri stöðu. Í dag er tími aðgerða því afleiðingar hamfarahlýnunar blasa við um heim allan. Hitabylgjur, flóð, þurrkar og öfgakenndar sveiflur eru birtingarmyndin og valda neyð og hörmungum,“ skrifar Katrín á Facebook.
Um hundrað manns voru viðstödd kveðjuathöfnina þar sem minningarskjöldur um Ok var afhjúpaður.