Eurovision söngvakeppnin mun ekki fara fram í Amsterdam, höfuðborg Hollands, á næsta ári. Fimm hollenskar borgir vilja halda keppnina en það er ljóst að hún fer ekki fram í höfuðborginni. Þetta kemur fram á fréttasíðu Eurovision, ESC Today.
Sjá einnig: Þetta eru tíu bestu lögin sem Ísland hefur sent í Eurovision
Þeir þrír tónleikastaðir í Amsterdam sem komu til greina fyrir keppnina eru allir uppbókaðir fyrstu vikurnar í maí, þegar keppnin fer fram. Borgin dró sig því út úr umsóknarferlinu.
Sú tónleikahöll sem verður fyrir valinu þarf að vera laus í um átta vikur í kringum keppnina til þess að hægt sé að annast allan undirbúning og æfingar.
Þær borgir sem koma nú til greina fyrir keppnina eru Rotterdam, Utrecht, Den Bosch, Arnhem og Maastricht. Líklegast er að keppnin fari fram í Rotterdam en héraðsstjórn Suður-Hollands hefur heitið einnar milljónar evra framlagi til undirbúnings keppninnar verði hún haldin þar.
Ákvörðun um staðsetningu keppninnar verður líklega tekin í ágúst.