Auglýsing

Evrópusambandið hársbreidd frá því að banna kebab

Reglugerð sem gæti bannað fosföt í matvælaframleiðslu og þar með bannað kebab eins og við þekkjum það í dag liggur nú fyrir á Evrópuþinginu. Þúsundir starfa gætu tapast og bragðlaukar milljóna gætu verið í stórkostlegri hættu. Þetta kemur fram á vef The Guardian.

Fosföt er efni sem hefur verið notað ýmsa matvælaframleiðslu og má finna í frosnum fiski, sushi, gosdrykkjum, ostum og unnum kjötvörum. Í kebab er fosföt notað til að halda kjötinu safaríku og viðhalda bragðinu.

Í frétt The Guardian kemur fram að um 1,3 milljón döner kebab seljist á hverjum einasta degi í Bretlandi á fleiri en 20 þúsund stöðum. Þá kemur fram að í Evrópu starfi um 200 þúsund manns í bransanum. Döner kebab er langvinsælasti skyndibitinn í Þýskalandi og þar hefur fólk stórar áhyggjur. Kenan Koyuncu, formaður sambands þýskra kebabframleiðenda segir í viðtali við The Guardian að ef málið nái í gegn á Evrópuþinginu gæti það verið dauðadómur fyrir kebabiðnaðinn innan Evrópusambandsins.

Niðurstöður rannsóknar frá árinu 2012 benda til þess að möguleg tengsl séu á milli notkunar á fösföt í matvælum og hjartasjúkdóma. Niðurstöðurnar þykja þó ófullnægjandi. Fosföt er þegar bannað í fersku kjöt í ríkjum Evrópusambandsins en bannið hefur hingað til ekki náð yfir frosið kjöt, eins og til dæmis kjöt sem notað er í kebab.

Tillagan snýst um að banna fosföt alfarið í matvælaframleiðslu en í síðustu viku hafnaði heilbrigðisnefnd innan Evrópuþingsins tillögu framkvæmdastjórnar ESB sem hefði leyft notkun á efninu í ær-, kálfa-, lamba-, nauta- og fuglakjöti í kebab.

Evrópuþingið á eftir að taka afstöðu til málsins en það gerist eftir tæpar tvær vikur. Ef þingið hafnar tillögunni fer hún aftur til framkvæmdastjórnarinnar og framtíð kebabs verður skilin eftir í óvissu.

Baris Donmez, eigandi kebab-veitingastaðar í Berlín, er þó pollrólegur yfir málinu og telur að vinsældir kebabs komi í veg fyrir að rétturinn verði bannaður. „Þjóðverjar elska döner. Það tekur hann enginn af þeim.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing