Óprúttnir aðilar komu í veg fyrir söfnun sem blásið var til í Noregi fyrir barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur og drengina þeirra í gær. Búið var að safna tæpri hálfri milljón íslenskra króna fyrir framtíð drengjanna þegar norska söfnunarsíðan Spleis lokaði henni fyrirvaralaust. Þeir sem stóðu að söfnuninni fengu þau skilaboð að vegna kvartana hafi verið tekin sú ákvörðun að loka söfnuninni; hún bryti í bága við skilmála síðunnar.
„Þeir sögðu það að síðan tæki ekki þátt í forræðisdeilum. Þessi söfnun snérist ekkert um forræðisdeilu og því ljóst að þeir sem tilkynntu söfnunina til Spleis hafa haft horn í síðu föðurs barnanna. Það er virkilega leiðinlegt að vita til þess að fólk er ennþá að reyna að leggja stein í götu hans því það hefur óneitanlega áhrif á börnin líka. Það er bara staðreynd,“ segir Tove-Kristin Lugvigsen, ein af þeim sem stóð að söfnuninni.
Söfnunin komin aftur af stað
„Við gefumst ekki upp. Það er alveg á hreinu. Við ætlum ekki að láta lítinn háværan hóp eyðileggja fyrir okkur sem viljum standa við bakið á strákunum og pabba þeirra,“ segir Tove-Kristin í samtali við Nútímann.
„Við fengum aðstoð úr óvæntri átt en haft var samband við söfnunarsíðuna GoFundMe sem er staðsett í Bandaríkjunum. Þar vorum við fullvissuð um það að við værum ekki að brjóta neinar reglur eða skilmála og því er söfnunin komin aftur af stað og í þetta skiptið skal hún standa óáreitt – sama hvað óforskammaðir aðilar reyna að gera.“
Þeir sem vilja styðja drengina þrjá og föður þeirra er bent á söfnunarsíðu GoFundMe. Hægt er að sjá síðu söfnunarinnar með því að smella HÉR. Söfnunin var sett upp í gærkvöldi og vonast Tove-Kristin að þeir sem hafa haft samúð með drengjunum og föður þeirra kynni sér söfnunina en hægt er að leggja henni lið án þess að nafn viðkomandi komi fram.
Heyrt um íslensku hakkavélina
„Já, við hvetjum alla til að standa við bakið á þeim. Margt smátt gerir eitt stórt og ég undirstrika að það er hægt að leggja þessu mikilvæga málefni lið undir nafnleynd. Ég hef heyrt og lesið hvernig farið er með fólk á Íslandi sem hefur vogað sér að skipa sér í annað lið en Eddu Bjarkar og hennar stuðningsmanna. Mér er sagt að hún sé kölluð „íslenska hakkavélin“. Þetta snýst ekki einu sinni um lið. Þetta snýst um að standa við bakið á því sem er rétt. Standa við bakið á þeim sem vilja ekkert annað en að vera foreldrar barna sinna. Vera til staðar. Þessi barátta föðursins er barátta okkar allra,“ segir Tove-Kristin sem þekkir bæði föður drengjanna og Eddu Björk.
Tove-Kristin var nefnilega vinkona Eddu Bjarkar en þær talast ekki við í dag. Hún var beinskeytt og ómyrk í máli í athugasemd undir jólakveðju Eddu Bjarkar á Facebook sem systir hennar, Ragnheiður Arnardóttir, birti fyrir skömmu. Þar segir Tove-Kristin að Edda Björk hafi svindlað á fólki úti um allan heim og telur upp lönd á borð við Rússland, Mexíkó, Ungverjaland, Danmörk og Svíþjóð.
Svik og sviðin jörð um allan heim
„Ég og vinir mínir í Noregi vitum hina sönnu sögu. Hvernig getur móðir varið það að valda börnum sínum áfalli á jafn öfgafullan hátt? Þetta hefur verið útkljáð með lögum og hefur ekkert með barnarverndaryfirvöld í Noregi að gera. Þetta er faðir sem hefur gert allt sem hann getur til að hugsa um börnin sín og það er það sem sannarlega ber að fagna, ekki þessum lævísa svindlara sem þrífst bara þegar hún er miðdepill athyglinnar. Þessi kona sem þið hrósið svo mikið hefur svindlað og svikið sig í gegnum Noreg, Svíþjóð, Danmörku, Bandaríkin, Mexíkó, Ungverjaland, Rússland og svo framvegis og svo framvegis…við vitum það – hún kúgar (e. manipulates) og platar alla leið…og þið verjið þetta??? What goes around comes around – ALLTAF!,“ skrifar Tove-Kristin.
Nútíminn hefur á undanförnum dögum fengið fjölmargar tilkynningar um fjármálagjörninga Eddu Bjarkar sem tengjast hundaheiminum en hún stóð að úlfhundaræktun í Danmörku og Noregi. Nokkrir þeir sem Nútíminn ræddi við segja farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við Eddu Björk. Hún hafi ýmist lofað greiðslum eða hvolpum sem hafi aldrei skilað sér. Þetta staðfestir Tove-Kristin.
„Þetta er satt og það er ekkert hægt að beygja þann sannleika eða toga til. Það er sviðin jörð eftir hana út um allan heim.“