Auglýsing

Facebook deildi upplýsingum um notendur sína með 52 tækniframleiðendum

Samfélagsmiðillinn Facebook deildi upplýsingum notenda sinna með 52 tækni- og hugbúnaðarfyrirtækjum til þess að samfélagsmiðillinn virki sem best á snjallsímum og öðrum snjalltækjum. Þetta kemur fram í umfjöllun The Washington Post um helgina. RÚV greinir einnig frá.

Facebook svaraði spurningum Bandaríkjaþings í rúmlega 700 blaðsíðna skjali þar sem kemur fram að fyrirtækið deildi gögnum með sumum þessara fyrirtækja í áraraðir. Þar kemur einnig fram að Facebook hafi nú þegar endað samstarf við 38 af 52 fyrirtækjum og ætli fljótlega að enda samstarf við sjö í viðbót.

Meðal fyrirtækja sem Facebook deilir eða deildi upplýsingum notenda sinna með eru Apple, Amazon, Microsoft, Samsung og kínversku fyrirtækin Huawei og Alibaba.

Samfélagsmiðillinn hefur verið mikið á milli tannanna á fólki eftir að hulunni var svipt af umdeildri gagnanotkun miðilsins þar sem upplýsingum notenda hans var deilt með utanaðkomandi aðilum, meðal annars gagnafyrirtækinu Cambridge Analytica sem notaði persónuupplýsingar af Facebook til að búa til gagnagrunn sem var síðan notaður til þess að sníða pólitískt efni að einstaklingum.

Mark Zuckerberg kom fyrir þingnefnd á Bandaríkjaþingi í apríl þar sem hann var harðlega gagnrýndur fyrir umdeilda gagnanotkun samfélagsmiðilsins. Þingmenn hafa sérstaklega gagnrýnt samband Facebook við kínversk tæknifyrirtæki, einkum Huawei, sem er sagt vera tengt kínverskum stjórnvöldum náið. Það sé mikil ógn við friðhelgi einkalífs og persónuvernd notenda samfélagsmiðilsins.

Í svari Facebook á föstudag viðurkenndi samfélagsmiðillinn að tækni- og hugbúnaðarfyrirtækin 52 þurftu ekki að lúta reglum sem smáforritum var gert að fylgja árið 2015 þegar Facebook fyrirskipaði að þau hættu upplýsingasöfnun um notendur sína.

Þrátt fyrir rúmlega 700 blaðsíðna svar við fyrirspurnum þingmanna eru enn mörgum spurningum þingmanna ósvarað og óljóst hvenær samfélagsmiðillinn mun svara þeim.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing