Hæstiréttur hefur staðfest þriggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur dætrum sínum. Það er vísir.is sem greinir frá þessu. Faðirinn var handtekinn þann 31. október og neitar sök en hann var sakfelldur á tíunda áratugnum fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn þriðju dótturinni.
Félagsmálastjóri í sveitarfélaginu þar sem fólkið býr tilkynnti lögreglu um meint brot mannsins gagnvart yngstu dóttur sinni. Stúlkan sjálf hafði þá greint frá því í skýrslutöku að faðirinn hafi í nokkur skipti haft samfarir við hana þegar hún var á aldrinum fimm til sex ára. Stúlkan sagði brotin hafa átt sér stað meðan fjölskyldan bjó erlendis.
Stúlkan sagði vinkonum sínum fyrst frá brotunum en þá kom í ljós að eldri systir hennar hafi greint frá samskonar brotum. Það mál er á borði héraðssaksóknara. Lögreglan metur framburð stúlkunnar afar trúverðugann.