Heimsmeistaramótið í handbolta hefst í Katar 15. janúar. Gríðarleg uppbygging á íþróttaaðstöðu hefur staðið yfir í landinu undanfarin ár og hafa framkvæmdirnar kostað þúsundir farandverkamanna frá Asíu og Afríku lífið.
Í dag er farandverkafólki greitt fyrir að mæta á íþróttaviðburði í landinu til að fylla stúkurnar. Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, sagði í viðtali við RÚV milli jóla og nýárs að Katar væri ekki spennandi land, að þessu leyti:
Nei. Ég hef verið þar tvisvar. Jújú, fullt af sandi og nýjum byggingum og eitthvað en maður er hræddur um hvort það verði áhorfendur yfir höfuð á leikjunum. Ég hef tvisvar spilað mót þarna. Þeir ná í einhverja iðnaðarmenn og útlendinga sem vinna hjá þeim til að fylla stúkurnar. Mér finnst líklegt að það verði þannig líka núna. Eftir að hafa spilað tvö mót þarna þá get ég með góðri samvisku sagt að það var ekkert merkilegra en að fara bara á æfingu.
Í nóvember í fyrra kom í ljós að Katar heldur heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum árið 2019. Af því tilefni sagði Aphrodite Moschoudi, fulltrúi Katar, að þjóðin elskaði hreinlega íþróttir. „Katar er með ástríðu fyrir íþróttum. Í landinu okkar snýst allt um íþróttir.“
Sjá einnig: Katar bauð 20 íslenskum stuðningsmönnum á HM í handbolta
Moschoudi virðist aðeins vera að ýkja þar sem ný könnun sem stjórnvöld í Katar létu framkvæma bendir til þess að almenningur nenni ekki að mæta á íþróttaviðuburði vegna þess að það sé verið að borga öðrum fyrir að mæta. Rúmlega 60% aðspurðra mættu ekki á fótboltaleik á síðasta tímabili og jafn hátt hlut hlutfall tiltók útbreiðslu „aðdáenda“ sem fá borgað fyrir að mæta sem ástæðu.
Samkvæmt frétt Associated Press fá farandaverkamenn jafnvirði átta dala, um þúsund krónur, fyrir að mæta á leikina. Þeir klæða sig stundum upp eins og innfæddir, klappa og fagna en því miður ekki af brennandi áhuga.