Auglýsing

Fékk hraðasekt upp á 30 þúsund krónur og var í kjölfarið boðaður til afplánunar á Hólmsheiði

„Ég er eiginlega orðlaus og hef ekki fengið frekari skýringar á þessu,“ segir maður á fertugsaldri sem á dögunum fékk boð um að mæta í afplánun á Hólmsheiði. Það væri kannski ekki frásögur færand nema fyrir þær sakir að maðurinn er með flekkflausan feril og verður seint talinn hættulegur umhverfi sínu.

Alvarlegasta lögbrotið sem hann hefur framið er að keyra yfir löglegan hámarkshraða. Það gerði hann árið 2022 og var honum gert að greiða sekt í kjölfarið en hún hljóðaði upp á 30.000 kr.-

Hér má sjá boðunarbréf mannsins en á henni er að finna meðal annars sektarupphæðina og þann fjölda daga sem vararefsingin er.

„Það skrifast alveg á mig að ég hafi ekki fylgst betur með því þegar þessi krafa var búin til á mig á sínum tíma en að boða mig í afplánun á Hólmsheiði í stað þess að senda mér ítrekun eru afskaplega undarleg vinnubrögð að mínu mati,“ segir maðurinn sem fór með bréfið rakleiðis á næstu lögreglustöð og greiddi sektina. Hann segist þekkja til og vita um þó nokkra sem hafi bæði fleiri en einn dóm á bakinu og langar afplánanir vegna ljótra lögbrota en þeir séu ekki á leiðinni inn.

„Þar sem þú hefur ekki sinnt áskorunum um að greiða fyrrgreinda/r sekt/ir tilkynnist hér með um fyrirhugaða afplánun með vísan til 1. mgr. 88. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 16/2015. Ber þér að mæta til afplánunar vararefsingar í fangelsið Hólmsheiði kl. 14:00 á 28. degi frá birtingu tilkynningar þessarar.“

„Þeir voru hins vegar tilbúnir að rúlla út rauða dreglinum fyrir mig. Það er það sem ég skil ekki. Ofbeldismenn ganga lausir með dóma á bakinu sem þeir eiga eftir að afplána á meðan ég keyrði aðeins of hratt í Ártúnsbrekkunni á leiðinni heim úr vinnu. Það ætti að vera auðvelt reiknidæmi hverjir ættu að fá forgang í afplánun og hverjir ekki en það virðist ekki vera þannig,“ segir maðurinn og bendir á að reglulega sé fjallað um yfirfull íslensk fangelsi í fjölmiðlum. Boðun hans til afplánunar skýtur því skökku við en maðurinn átti að sitja inni í fjóra daga ef hann hefði ekki greitt sektina. Það gera 7.500 kr.- fyrir daginn sem verða að teljast ansi slöpp laun.

Tveggja ára biðlisti í afplánun

Það er líka laukrétt hjá honum. Í lok desember fjallaði Heimildin um þessi yfirfullu fangelsi en þar kom fram að tæplega tveggja ára biðlisti er fyrir afplánun í fangelsi á Íslandi en 262 voru þá, þegar fréttin var skrifuð í desember, á boðunarlista stofnunarinnar sem fékk falleinkunn í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Boðun hins meinta ökuníðings fer því af augljósum ástæðum ekki heim og saman með hinni raunverulegu stöðu fangelsanna og þeirra rýma sem þar eru í boði til að afplána. Nútíminn reyndi að grennslast fyrir um málið í dag og hafði til að mynda samband við Fangelsismálastofnun. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, var ekki við í dag og því var óskað eftir svörum með tölvupósti. Þau svör hafa ekki borist.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing