Auglýsing

Ferðamenn leita ítrekað að fossinum Selfossi á Selfossi, er í meira en 500 km fjarlægð

Erlendir erðamenn banka ítrekað upp á hjá Margréti Birgittu Davíðsdóttur, íbúa á Selfossi og spyrja um fossinn Selfoss. Þeir verða jafnan steinhissa þegar þeir komast að því að fossinn fallegi sé í meira 500 kílómetra fjarlægð, á Norðausturlandi.

Svo virðist sem misskilningurinn sé mjög algengur meðal ferðamanna því á hverjum degi kemur að minnsta kosti einn ferðamaður á Subway á Selfossi, sem stendur við Ölfusá og biður starfsmann um að leiðbeina sér að fossinum Selfossi.

„Það var sérstaklega mikið um þetta í sumar, að þeir væru að banka upp á og spyrja hvort fossinn Selfoss væri ekki hér,“ segir Margrét í samtali við Nútímann. Hún býr miðsvæðis í bænum og telur líklegast að GPS-tæki ferðamannanna leiði þá í miðju bæjarins Selfoss. Þegar leitað er að Selfossi á Google blasir við falleg mynd af fossi og bendir Margrét á að ferðamönnunum finnist líklega liggja beint við að þar sé fossinn einnig að finna.

Ég hef fullan skilning á þessu.

Þegar Margrét sagði fólki frá heimsóknum ferðamannanna trúðu henni ekki allir. Smá saman hafa gestir á heimilinu orðið vitni að heimsóknunum og geta því ekki annað en trúað henni. „Svo hefur maður sé fólk vera að sniglast í kringum húsið á bílaleigubílum. Það hugsar líklega: Nei, fossinn er trúlega ekki þarna,“ segir Margrét.

Fyrirtæki við Ölfusána hafa einnig fengið heimsóknir frá ferðamönnum í leit að fossinum.

„Þeir koma inn, eru svona smá vandræðalegir og spyrja síðan hvort við getum bent þeim á fossinn Selfoss. Ég útskýri fyrir þeim að fyrir neðan kirkjuna hafi verið vísir að fossi þar sem selir komu upp til að kæpa. Ég bendi þeim á að þar sé þó enginn foss. Ég myndi segja að þeir komi á hverjum degi, einn eða fleiri. Og enn fleiri á sumrin,“ segir Ragnheiður Eggertsdóttir, verslunarstjóri Subway á Selfossi, í samtali við Nútímann.

Hún segir ferðamennina jafnan verða fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir átta sig á því að þeir séu víðsfjarri hinum eina sanna Selfossi. Reynir hún þá að benda þeim á Seljalandsfoss og aðra fossa í nágrenninu.

Sjá einnig: Hér er leiðin sem bandaríski ferðamaðurinn ók, fór á Laugarveg í staðinn fyrir Laugaveg

Skemmst er að minnast þess þegar erlendur ferðamaður ætlaði á Hótel Frón á Laugavegi í Reykjavík en endaði á Laugarvegi á Siglufirði vegna misskilnings við notkun á GPS-tæki. Ferðamaðurinn átti bókað herbergi á Hótel Frón. Eftir að hafa keyrt í fimm klukkustundir bankaði hann upp á hjá Sigurlínu Káradóttur sem býr á Laugarvegi, með R-i, á Siglufirði og spurði hvort Hótel Frón væri í grenndinni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing