Starfsfólki í fíkniefnadeild lögreglunnar verður boðin áfallahjálp eftir að reyndur fíkniefnalögreglumaður var hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa brotið alvarlega af sér í starfi. Þetta kemur fram á Vísi.
Þetta staðfestir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir starfsfólk vera í áfalli en getur ekki tjáð sig nánar um málið.
Samkvæmt Vísi er lögreglumaðurinn grunaður um alvarlegt brot í starfi sem snýr að óeðlilegum samskiptum við aðila sem hafa verið til rannsóknar hjá fíkniefnadeild lögreglu.
Vísir greinir frá því að lögreglumaðurinn hafi starfað hjá fíkniefnadeildinni í meira en áratug.
Tíðindin af varðhaldi hans hafa komið fólki gjörsamlega í opna skjöldu enda er hann ekki þekktur af öðru en góðu og talinn stálheiðarlegur og faglegur að öllu leyti í sínu starfi.
Vísir hefur fjallað um mál lögreglumannsins og yfirmanns í fíkniefnadeild lögreglunnar sem var fluttur til í starfi fyrr á árinu. Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari að málin séu ekki nátengd og séu ekki rannsökuð sem eitt og sama málið.