Auglýsing

Fimm ára fangelsi fyrir skotárásina á aðfangadag: Skaut í átt að 9 ára barni

Rúmlega tvítugur karlmaður, Ásgeir Þór Önnuson, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir húsbrot inn á heimili í Hvaleyrarholti í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld í fyrra og skotið sex sinnum úr skammbyssu í átt að 9 ára gömlu barni og föður hennar. RÚV greinir frá en dómurinn hefur verið birtur á vef héraðsdómstóla.

Nútíminn greindi fyrst frá málinu aðfaranótt jóladags og svo aftur í byrjun janúar á þessu ári. Þá greindi Nútíminn frá því að barnið, 9 ára gömul stúlka, hafi hlotið sár í andliti eftir að eitt af skammbyssuskotunum hafnaði í vegg sem flísaðist úr. Ásgeir Þór var sakfelldur í öllum þeim ákæruliðum sem saksóknari höfðaði gegn honum. Um er að ræða sakfellingu fyrir húsbrot, hættubrot, vopnalagabrot og tilraun til manndráps.

9 ára gamalt barn rétt slapp við skammbyssuskot á aðfangadag í Hafnarfirði: Brot úr vegg hæfði andlit barnsins

Ásgeir Þór var þó ekki einn að verki en samverkamenn hans hlutu samt sem áður vægari dóma. Einn þeirra rauf skilorð með umræddri árás á aðfangadagskvöld. Hann heitir Breki Þór Frímannsson. Breki Þór var dæmdur í 30 mánaða fangelsi fyrir að hafa liðssinnt Ásgeiri við undirbúning og framkvæmd skotárásarinnar. Sá þriðji hlaut eins árs skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar sem var notuð til að flýja af vettvangi.

Líkt og Nútíminn greindi frá notaði Ásgeir Þór skammbyssu – hún, samkvæmt dómi, var af gerðinni Colt 1911 A1 en hún er hálfsjálfvirk og ólögleg hér á landi.

Bæði Ásgeiri og Breka var gert að greiða barninu tvær milljónir í miskabætur auk þess sem föður hennar voru dæmdar 1,5 milljónir króna.

Hægt er að lesa dóminn með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing