Kona á fertugsaldri hefur verið ákærð af embætti héraðssaksóknara vegna sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa ráðist að fyrrverandi sambýlismanni sínum og barnsföður með hnífi fyrir utan verslunarmiðstöðina Austurver 9. apríl 2015. mbl.is greindi fyrst frá ákærunni.
Konan var dæmd í 18 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok september fyrir að hafa ítrekað beitt börn sín andlegum og líkamlegum refsingum, haft í hótunum við þau, ógnað þeim og sýnt þeim vanvirðandi háttsemi.
Í ákæru málsins kemur fram að hún hafi stungið manninn í átt að brjóstkassa og kviði með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á hægri hendi við að verjast hnífnum. Farið er fram á að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að þann 9. apríl 2015 hafi lögreglu borist tilkynning vegna heimilisofbeldis á milli foreldra barnanna fyrir utan verslun. Yngsta barnið var í bifreið móður sinnar á meðan atvikið átti sér stað.
Haft var eftir vitni að móðir hafi veist að föður með hníf og ítrekað otað honum að brjóstkassa hans, eins og hún ætlaði að stinga hann þar, en hann hafi náð að víkjast undan henni. Móðirin fór því næst upp í bíl sinn, bakkaði út úr bílastæðinu og beygði þannig að framendinn á bíl hennar lenti á vinstri hlið bíl föðurins þannig að öll vinstri hliðin beyglaðist.
Fyrr á síðasta ári, eða 24. mars, barst tilkynning frá frístundaheimili þar sem næstelsta barnið hafði greint frá grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu móður sinnar.
Hann hafi lýst því að hann hafi verið í sturtu og móðir hans hafi hrint honum og sagt við hann að hún vonaði að hann myndi drukkna. Þá hafi hún kallað hann „motherfucker“ af því að hann hafi talið sig hafa misst af skólabílnum.
Hann hafi lýst hræðslu við móður sína og ekki viljað vera heima. Þá hafi hann greint frá því að hann hafi áður lent í slíkum aðstæðum. Hann hafi oft verið kallaður ljótum orðum af móður sinni og hún ásamt vinkonu sinni hafi slegið systkini hans og börn vinkonunnar með beltum.
Í ljósi atviksins 9. apríl, sem nú er ákært fyrir, og tilkynningarinnar 24. mars á síðasta ári, var óskað samþykkis fyrir vistun barnanna utan heimilis. Hún samþykkti það ekki og var því gripið til neyðarráðstofunar og börnin tekin úr umsjón móður og færð á Vistheimili barna.