Heimsleikarnir í CrossFit hefjast í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum í dag. Leikarnir eru stærsta CrossFit keppni ársins en við Íslendingar eigum fimm keppendur sem taka þátt í ár.
Þær Annie Mist Þórisdóttir, Katrína Tanja Davíðsdóttir, Sara Sigmundsdóttir og Oddrún Eik Gylfadóttir keppa í kvennaflokki. Í kvennaflokki eru 40 keppendur sem þýðir að Íslendingar eru tíu prósent keppanda. Annie Mist og Katrín Tanja hafa báðar unnið keppnina tvisvar áður. Sara hefur best náð þriðja sætinu en Oddrún keppir nú í fyrsta skipti í einstaklingskeppni.
Björgvin Karl Guðmundsson er eini Íslendingurinn í karlaflokki. Þetta er hans fimmta skipti á leikunum en hans besti árangur er þriðja sætið. Frederick Aegidius, eiginmaður Annie Mistar, tekur einnig þátt á leikunum í ár.
Þá keppa þrír Íslendingar í unglingaflokki leikanna en þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingar keppa í þeim flokki. Þau Brynjar Ari Magnússon, Birta Líf Þórarinsdóttir og Katla Björk Ketilsdóttir keppa í unglingaflokki.
Verðlaun fyrir sigur á leikunum eru ekki af verri endanum en sigurvegari í hvorum flokki vinnur sér inn 300 þúsund dali. Það eru um 32 milljónir króna. Verðlaunaféð er jafnmikið fyrir karla og konur. Annað sætið gefur tæplega 11 milljónir króna og það þriðja um 8 milljónir.
Keppnin hefst eins og áður segir í dag og stendur til sunnudags. Alls eru fjórar greinar sem keppt verður í í dag. Í öllum þeirra verður reynt á úthald keppenda. Síðasta grein dagsins er ein sú erfiðasta sem hefur sést á leikunum en þar þurfa keppendur að róa heilt maraþon eða 42,2 kílómetra, í róðravél. Þau hafa fjóra tíma til þess.