Gylfi Þór Sigurðsson er launahæsti íslenski atvinnumaðurinn. Hann er með um 480 milljónir króna í árslaun hjá Swansea, sem leikur í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Fimm launahæstu atvinnumennirnir spila allir fótbolta og eru samtals með meira en milljarð í árslaun.
Þetta kemur fram í úttekt Viðskiptablaðsins.
Alfreð Finnbogason er í öðru sæti listans með 160 milljónir í árslaun. Hann er samningsbundinn Real Socidad á Spáni en var lánaður til Olympiakos í Grikklandi í fyrra. Kolbeinn Sigþórsson er í þriðja sæti listans með 150 milljónir í árslaun hjá franska liðinu Nantes.
Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen, leikmenn Jiangsu Sainty í Kína eru í fjórða og fimmta sæti listans. Viðar er með um 130 milljónir króna í árslaun og Sölvi Geir er með um 115 milljónir króna í árslaun.
Á listanum yfir 20 launahæstu atvinnumennina eru aðeins þrír menn sem spila ekki fótbolta. Guðjón Valur Sigurðsson spilar handbolta með Barcelona og þénar um 48 milljónir á ári og Aron Pálmarsson spilar með Veszprém í Ungverjalandi og þénar þar um 42 milljónir krónar á ári.
Körfuboltamaðurinn Jón Arnór Stefánsson, leikmaður Valencia á Spáni, þénar um 32 milljónir króna á ári.