Fimm nýir rafvagnar Strætó eru væntanlegir til landsins í dag og búast má við því að þeir verði teknir í notkun um miðjan ágúst.
Strætó festi kaup á 14 rafvögnum frá kínverska framleiðandanum Yutong á síðasta ári. Fyrstu fjórir komu til landsins í mars á þessu ári og í dag bætast fimm við. Síðustu fimm vagnarnir eru svo væntanlegir í vetur samkvæmt tilkynningu frá strætó.
Rafvagnarnir hafa reynst afar vel fram til þessa samkvæmt Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó.
„Þetta var stórt stökk fyrir okkur og að miklu að huga þegar við fengum fyrstu rafvagnana. Við komum upp nýjum hleðslustöðvum, það þurfti að þjálfa starfsfólkið okkar og síðan þurftum við að prófa bílana á mismunandi leiðum. Heilt yfir hefur þetta gengið afar vel og flestir virðast afar ánægðir með nýju og hljóðlátu vagnana okkar,“ er haft eftir Jóhannesi í tilkynningu.
Hingað til hefur ekki verið mögulegt að hafa rafvagnana í akstri yfir heilan dag en það mun breytast með tilkomu nýrrar hleðslustöðvar.
„Eins og staðan er núna þá eru rafvagnarnir að aka á tvískiptum vöktum. Þeir aka á morgnana til ca. 10:00 og fara síðan í hleðslu á höfuðstöðvum okkar að Hesthálsi. Þeir eru síðan aftur sendir út um 14:00 leytið og eru að keyra fram á kvöld. Við eigum von á nýrri hleðslustöð síðar á þessu ári og við erum enn að meta það hvar henni verður komið fyrir. Eins og staðan er núna, er líklegast að hún verði sett í Mjóddina eða í Spöng,“ segir Jóhannes.