Eins og Nútíminn greindi frá um helgina kynntu frumkvöðlarnir Búi Aðalsteinsson og Stefán Thoroddsen, frá BSF Productions, prótínstykkið Crowbar á sérstökum fjárfestadegi á vegum Startup Reykjavík í höfuðstöðvum Arion banka á föstudag.
Næringin úr Crowbar kemur hvorki úr mjólkur- né sojavörum, heldur skordýrum — nánar tiltekið úr kribbum (e. cricket). Búi og Stefán eru gríðarlega ánægðir með viðbrögðin um helgina en þeir byrjuðu á að leyfa fjárfestum að smakka eftir að hafa kynnt fyrir þeim verkefnið.
Þetta voru um 100 manns og það komu allir og fengu sér án þess að hika. Öllum fannst þetta gott.
Seinna sama dag bauðst gestum og gangandi, sem höfðu ekki fengið kynningu, að smakka. Stefán segir fólk hafa verið hikandi. „Þeir sem smökkuðu fannst þetta gott. Það þarf samt greinilega að kynna fólk fyrir hugmyndinni fyrst svo að það fái kjarkinn til að smakka.“
Crowbar er unnið úr svokölluðu kribbuhveiti sem Stefán segir innihalda hágæðaprótín. „Þetta er prótín er algjörlega það besta sem þú færð,“ segir hann. Kribburnar eru ræktaðar á fimm stöðum víða um heim, meðal annars í Kanada og í Texas í Bandaríkjunum og kribbuhveitið er samþykkt af matvælastofnunum í löndunum.
Kribbuhveitið lítur svona út:
Nú tekur við ferli þar sem Stefán og Búi vinna að fjármögnun verkefnisins ásamt því að semja við birgja og framleiðendur. Aðstandendur heilsuvörusýninga eru að sögn Stefáns afar spenntir fyrir Crowbar, enda hafa þeir aldrei heyrt um annað eins. „Svo er alltaf mikil eftirspurn eftir prótínríkum vörum,“ segir hann.
Svona lítur ein uppskrift strákanna út þegar hnetum og öðru góðgæti hefur verið blandað saman við: