Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og þingmaður Viðreisnar, biðst afsökunar á því að hafa vísað til þingkvenna sem hagsýnna húsmæðra í ræðustól Alþingis í gær. Hann segir ummælin kjánaleg.
Þetta kemur fram á Facebook.
Hann segist hafa verið að reyna að gefa hnyttið andsvar við fyrri ræðu. Það hafi aftur á móti heppnast afleitlega.
„Um leið og ég heyrði mig segja þetta hugsaði ég: „Þú ert nú ekki alltaf jafn orðheppinn Benedikt.“ Þetta voru kjánaleg ummæli og ég biðst afsökunar á þeim,“ skrifar Benedikt.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi Benedikt við upphaf þingfundar í dag vegna ummælanna sem hann lét falla í umræðum um verklag við opinber fjármál í gær.
Þar sagði Benedikt að honum fyndist áhugavert hverjir sýndu þessum málaflokki áhuga – hann og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og svo „hinar hagsýnu húsmæður sem eru í stórum hópum hér inni.“