Fjarvera ráðherra úr ríkisstjórn Íslands myndi spara ríkissjóði tugi milljóna króna. RÚV greindi frá því í gær að ríkisstjórnin ræði nú að sniðganga HM í Rússlandi, til að sýna samstöðu með Bretum sem saka rússnesk stjórnvöld um að bera ábyrgð á taugaeiturárás í Bretlandi.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við RÚV að endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir. Höfum þó á hreinu að málið snýst ekki um íslenska landsliðið, sem keppir að sjálfsögðu á mótinu og mætir Argentínu í fyrsta leik.
Flug, gisting, uppihald og annað sem fylgir slíkum ferðalögum myndi kosta ríkissjóð milljónir þannig að háar upphæðir myndu sparast ef ríkisstjórnin myndi láta verða að því að sniðganga mótið.
Ef við gerum ráð fyrir því að forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og menntamálaráðherra hefðu farið út þá er ljóst að þau myndu öll taka með sér að minnsta kosti einn aðstoðarmann. Varlega áætla yrðu þetta því átta manns sem færu á vegum ríkisstjórnarinnar á HM í fótbolta í Rússlandi.
Samkvæmt leitarvélinni Dohop kostar að minnsta kosti 50 þúsund krónur að komast til Moskvu og aftur til Íslands í júní. Miðað er við allra lægsta verð þannig að varlega áætlað þyrfti eflaust að greiða um eina til tvær milljónir fyrir flug. Annað eins þyrfti eflaust að greiða fyrir gistingu. Þá fengi hópurinn dagpeninga í ferðinni sem myndu eflaust hlaupa á nokkrum milljónum ásamt því að gisting myndi kosta sitt.
Athugið að um getgátur er að ræða þó kostnaður sé afar varlega áætlaður. Það er í öllu falli ljóst að fjarvera ríkisstjórnarinnar myndi spara ríkissjóði milljónir.