Uppfært kl. 12.05: Skipan Gústafs hefur verið dregin til baka.
—
Ákvörðun Framsóknar og flugvallarvina að skipa Gústaf Níelsson sem varamann í mannréttindaráð borgarinnar hefur vakið mikla athygli. Í fyrstu fréttinni um málið á Vísi kemur fram að Gústaf sé flokksbundinn Sjálfstæðismaður og að hann hafisætt harðri gagnrýni fyrir ummæli sín í garð múslíma en hann hefur lýst því yfir opinberlega að hann sé á móti mosku í Reykjavík.
Gústaf skrifaði líka þessa grein um réttindi samkynhneigðra árið 2005. Skoðum nokkur ummæli úr greininni og um leið hvað nýjasti varamaðurinn í mannréttindaráði Reykjavíkur hefur að segja:
„Vissulega þarf mikið hugmyndaflug til að gera tvo karla að hjónum eða tvær kerlingar, en félagsfræðiþjóðfélagið lætur ekki að sér hæða; þar skal allt leyfilegt óháð staðföstum grunngildum, sem þó hafa agað mannskepnuna í aldanna rás.“
„Er það ekki hámark sjálfselskunnar að leggja ást á sitt eigið kyn, og slík ást getur aldrei borið ávöxt.“
„Það hefur löngum verið þekkt að sumt fólk leggur ást á sitt eigið kyn, en það er ekki þar með sagt að slík háttsemi sé eðlileg, heldur þvert á móti.“
„En hin kristnu samfélög Vesturlanda eru frjálslynd og umburðarlynd. Þau skilja að sum okkar eru öfugsnúin og afbrigðileg og láta refsilaust í dag, enda kærleiksboðskapurinn grunntónn í trúnni. En fyrr má nú rota en dauðrota, það var aldrei meiningin að leiða hið afbrigðilega og ófrjóa til öndvegis.“