Skopmyndateiknarinn og grínistinn, Hugleikur Dagsson hefur að undanförnu birt myndir á Instagram af listaverkum sínum sem fólk hefur látið flúra á sig. Hugleikur veit um a.m.k. 15 aðila sem hafa fengið sér myndir eftir hann á líkama sinn.
„Það eru rúmlega tíu ár síðan ég heyrði fyrst af því að fólk væri að gera þetta og ég var mjög snortinn. Ég var samt á sama tíma hissa á því að einhver vilji setja þetta á líkamann sinn,“ segir Hugleikur í samtali við Nútímann.
Ég hef fengið sendar ljósmyndar af örugglega 15 mismunandi tatto-um
Hann segir fólk bæði nota gamlar myndir eftir sig til að skreyta sig en hann hefur einnig verið beðinn um að teikna sérstakar myndir sem eiga að fara á líkama. „Ég er einmitt með tvær slíkar beiðnir á borðinu hjá mér núna,“ segir hann.
Hugleikur segir beiðnirnar og myndirnar sem fólk hefur látið flúra á sig mjög mismunandi. „Ég veit um einn sem fékk sér mynd af konu æla í barnavagn og textinn sem notaður var með myndinni var með Comic Sans letri. Það var spes,“ segir hann.
Hann segir það ekki hafa verið það undarlegasta sem hann hefði lent í. „Ég fékk einu sinni skilaboð á MySpace frá strák sem var að spá hvort ég væri til í að taka þátt í kostnaði á húðflúri sem hann ætlaði að fá sér. Ég hundsaði þennan mann,“ segir Hugleikur.
Í næsta mánuði mun Hugleikur halda nokkrar uppistandssýningar sem heita Who let the Dagsson? Hann hefur ákveðið að gefa öllum þeim sem skarta húðflúri með mynd af verkum hans frítt á sýninguna