Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að andláti hjóna á Neskaupstað fékk „gæðastimpil“ frá geðdeild Landspítalans nokkru fyrir voðaverkið en samkvæmt heimildum Nútímans hefur fjölskylda mannsins ítrekað reynt að fá hann sviptan sjálfræði en án árangurs.
Þessi einstaklingur hefur glímt við vímuefnavanda frá unga aldri en hann kveikti í húsi sínu í febrúar á þessu ári en greint var frá því í fjölmiðlum að mikið tjón hafi orðið að Miðstræti á Neskaupstað og að einn einstaklingur hafi verið heima þegar eldurinn kom upp.
Fjölskylda mannsins hefur fyrir þann tíma og síðan þá reynt að fá hann nauðungarvistaðan á geðdeild en komið allstaðar að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu.
„Sá komst út af sjálfsdáðum. Búið var á neðri hæðinni en atvinnustarfsemi á þeirri efri. Húsráðandi var einn í húsinu. Sá varð var við eldinn og komst út sjálfur, að því er virðist ómeiddur,“ kom fram í frétt Austurfréttarinnar í febrúar. Það fylgdi þó ekki fréttinni eða öðrum fréttum af eldsvoðanum að þessi einstaklingur, sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að andláti hjónanna, hafi kveikt í því sjálfur.
Komu að lokuðum dyrum í kerfinu
Samkvæmt heimildum Nútímans kveikti maðurinn í húsinu því „djöfullinn“ sagði honum að gera það. Til að halda því til haga þá gerðist þetta í febrúar á þessu ári. Fjölskylda mannsins hafði fyrir þann tíma og síðan þá reynt að fá hann nauðungarvistaðan á geðdeild en kom allstaðar að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu.
Ekki er langt síðan hann var á geðdeild en þá fékk hann að ganga út eftir aðeins tvo daga – hann fékk „gæðastimpil“ frá geðdeildinni sem þýðir að hann var metinn hvorki hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Maðurinn hafði þá verið nauðungarvistaður samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 en 18. til 27. grein þeirra laga fjallar sérstaklega um nauðungarvistun einstaklinga vegna geðræns ástands eða annarra ástæðna sem krefjast verndar þeirra sjálfra eða annarra.
Þeirri ákvörðun var harðlega mótmælt af hálfu fjölskylda mannsins enda hafði hún lengi varað við því að maðurinn væri bæði hættulegur sjálfum sér og öðrum ef hann myndi ganga laus í því ástandi sem hann var í á þeim tíma.
Fastur í geðrofsástandi
Samkvæmt heimildum Nútímans var maðurinn í stanslausu geðrofi (e. psychosis) sem er grafalvarlegt ástand þar sem einstaklingur missir tengsl við raunveruleikann. Geðrof þýðir að viðkomandi upplifir truflanir á hugsun, skynjun, tilfinningum og hegðun. Geðrof getur komið fram sem hluti af ýmsum geðsjúkdómum, þar á meðal geðklofa, alvarlegri þunglyndisröskun með geðrofseinkennum, geðhvarfasýki (bipolar disorder) og sem afleiðing lyfja- eða vímuefnanotkunar.
Helstu einkenni geðrofs eru:
• Ofskynjanir: Einstaklingur heyrir, sér, finnur, bragðar eða lyktar eitthvað sem er ekki til staðar í raunveruleikanum. Heyrnarskynjanir (að heyra raddir) eru algengastar.
• Ofsóknarhugmyndir: Einstaklingur trúir því að fólk sé að reyna að skaða hann, njósna um hann eða að hann sé í hættu, án þess að hafa raunverulegar ástæður til að trúa því.
• Ranghugmyndir: Einstaklingur trúir á eitthvað sem er ekki satt eða mjög ólíklegt, eins og að hann hafi sérstaka hæfileika, sé frægur eða valdamikill, eða að hann sé stjórnaður af utanaðkomandi öflum.
• Ruglað hugsun: Hugsunarferli verður oft sundurlaust og erfitt að fylgja rökhugsun. Tal einstaklingsins getur verið ruglingslegt eða ósamræmt.
Nútíminn ræddi við heilbrigðisstarfsmann um geðrof og geðrofseinkenni en sá vildi ekki koma fram undir nafni enda um mjög viðkvæmt mál að ræða. Spurt var hvort einstaklingur í slíku ástandi gæti talið heilbrigðisstarfsmönnum trú um það að hann væri ekki í geðrofi þrátt fyrir að vera í geðrofi.
Hægt að „fela geðrof“ tímabundið
„Já, það er mögulegt að einstaklingur í geðrofsástandi geti sannfært heilbrigðisstarfsmenn um að hann sé ekki í geðrofi, sérstaklega ef einkennin eru ekki augljós eða ef viðkomandi er fær um að fela þau tímabundið. Þetta getur gerst ef viðkomandi hefur innsýn í ástand sitt eða er mjög sannfærandi í samskiptum. Hins vegar eru heilbrigðisstarfsmenn þjálfaðir í að greina einkenni geðrofs, jafnvel þegar þau eru ekki strax augljós, og nota oft ítarlegar matstæður og viðtöl til að komast að réttri niðurstöðu,“ sagði heilbrigðisstarfsmaðurinn.
Eins og áður hefur komið fram var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. ágúst og er rannsókn málsins í fullum gangi hjá lögreglustjóranum á Austurlandi.