Fjölskylda drengsins sem varð stúlku að bana með hnífi á Menningarnótt hefur fengið hótanir. Þá hefur heimilisfangi fjölskyldunnar verið dreift á meðal ungmenna á samfélagsmiðlinum Snapchat.
Þetta herma heimildir Nútímans.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki staðfesta það við Nútímann þegar rætt var við hann rétt fyrir hádegi í dag. Hann gat þó staðfest, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum, að gerandanum hafi borist hótanir og því var drengurinn, sem er undir lögaldri, fluttur af meðferðarheimilinu Stuðlum og í fangelsið á Hólmsheiði. Þar situr hann í gæsluvarðhaldi en drengurinn er 16 ára gamall.
Færður vegna hótana
Sá flutningurinn var framkvæmdur til þess að tryggja öryggi drengsins en að sögn Gríms eru þær hótanir til rannsóknar. Þegar Grímur var aftur spurður hvort fjölskylda drengsins hafi borist hótanir þá endurtók hann að lögreglan geti ekkert gefið út um það eins og er.
Rannsókninni miðar vel að sögn Gríms.
Stúlkan sem lést í árásinni hét Bryndís Klara Birgisdóttir og var 17 ára.
„Fjölskylda Bryndísar Klöru vill koma á framfæri þakklæti til allra sem reyndu eftir fremsta megni að bjarga lífi Bryndísar Klöru, sérstaklega starfsfólki Landspítalans og þeim sem komu að fyrstu hjálp á vettvangi. Hjálp þeirra er ómetanleg,“ segir í tilkynningunni frá fjölskyldu Bryndísar Klöru.