Uppfært kl. 12.28: Við þingfestingu á málinu kom fram að fjölskyldan hafi fallið frá skaðabótakröfunni. Þetta kemur fram á vef RÚV.
—
Fjölskylda Shelagh D. Donovan, sem lést við Jökulsárlón árið 2015 þegar hún varð fyrir hjólabát, krefur skipstjórann sem stýrði bátnum samtals um 45 milljónir króna í skaðabætur vegna slyssins. Þetta kemur fram á mbl.is.
Maðurinn, sem var 22 ára þegar slysið varð, hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi og gæti átt yfir höfði sér sex ára fangelsi. Fjölskyldan gerir einkaréttarkröfu í málinu.
Í frétt mbl.is um málið kemur fram að eiginmaður konunnar krefjist þess að maðurinn greiði honum 26 milljónir ásamt 52 þúsund kanadískra dala. Þá krefjast börn þeirra þrjú, sem eru á aldrinum 20 til 27 ára, þess að fá skaðabætur frá fjórum milljónum upp í fimm og hálfa milljón.
Hjónin Michael Boyd og Shelagh Donovan voru á ferðalagi um Ísland ásamt syni sínum árið 2015. Þau voru að fylgjast með þyrlu lenda við lónið þegar hjólabát var bakkað á þau. Shelagh varð undir afturhjóli bársins og lést samstundis.
Í viðtali við RÚV um helgina sagði Michael að engar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar við Jökulsárlón. „Það voru engin viðvörunarskilti, engar girðingar á svæðinu og of fáir starfsmenn á vettvangi,“ sagði hann.
Mér skilst að ekki sé gerð krafa um bakkmyndavél í hjólabátum samkvæmt íslenskum lögum. Hún var þó til staðar í þessum bát en hún var í ólagi. Augljóslega kannaði enginn almennilega hvort fólk væri fyrir aftan farartækið.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Austurlands í dag.