Facebook færsla Toshiki Toma, sérþjónustuprests þjóðkirkjunnar við innflytjendur, hefur vakið mikla athygli í dag. Toshiki er prestur innflytjenda á Íslandi en færsla hans snýr að fjölskyldu sem var send frá Íslandi á síðasta ári. Þetta eru hjónin Nasr Rahim og Sobo Anwar Hasan og börnin þeirra tvö, Leo tveggja ára og Leona hálfs árs. Þau voru send til Þýskalands en nú hefur þeim verið vísað þaðan og dvelja nú í tjaldi í ónefndum skógi í Evrópu.
Nasr kemur frá Írak en Sobo Íran. Þau komu til Íslands í mars árið 2017 og skírðust til kristinnar trúar á meðan þau dvöldu hér. Þeim var vísað úr landi í nóvember sama ár.
Yfirvöld í Þýskalandi gáfu þeim endanlega synjun og og tilkynntu þeim fyrirhugaðar brottvísanir í lok september á þessu ári. Þau geta ekki snúið til heimalanda sinna sem þau flúðu á sínum tíma þar sem þau eru orðin kristin.
„Þau urðu að flýja Þýskaland og dvelja í dag í skógi í einu landi í Evrópu með tjald. (Ég forðast að segja nákvæmlega hvar þau eru) Þau eru með tvö börn – tveggja ára strák og sex mánaðar stelpu. Hvernig geta þau lifað af í slíkum aðstæðum?” segir séra Toma.
Toma biður Íslendinga um aðstoð og bæn. Hann sjálfur er staddur í heimalandi sínu, Japan, og getur voðalega lítið gert.
„Mig langar innilega að biðja ykkur, kæru vinir, gott fólk, kirkjufólk og mannúðarsamtök, um að ,,make an action“ til að rétta þeim hjálparhönd,“ segir hann
Vinsamlega deilið þessa færslu, talið um mál þeirra til annarra og hugsið málið hvernig við getum hjálpað þeim. Þið vitið, á Íslandi eiga raddir almennings enn kraft til að breyta hlutum. Please!!
Toma fékk skilaboð frá Nasr sem segir að staðan sé ekki góð, þeim sé kalt og dóttir þeirra sé orðin veik.
Mál fjölskyldunnar fékk töluverða fjölmiðlaumfjöllun á sínum tíma. Í átakanlegu viðtali á mbl.is grátbað Nasr yfirvöld á Íslandi um að fá að vera áfram í landinu. Þar segir hann að ef sonur þeirra fær til baka til Íran yrði hann líklega grýttur til dauða.
„Ef við förum aftur til Íran teljum við líklegt að hann verði grýttur til dauða. Þau munu segja að hann sé trúlaus eða kristinn og eigi enga framtíð í Íran, eins og foreldrar hans,“ sagði Nasr.