Toshiki Toma, sérþjónustuprests þjóðkirkjunnar við innflytjendur, greindi frá því á Facebook síðu sinni í gær að hjónin Nasr Rahim og Sobo Anwar Hasan og börnin þeirra tvö séu komin inn á heimili hjá stuðningsfjölskyldu í Frakklandi. Nasr og Sobo voru send frá Íslandi á síðasa ári en það vakti athygli á dögunum þegar Toshiki greindi frá því að þau þyrftu að dvelja í skógi í Frakklandi.
Nasr kemur frá Írak en Sobo Íran. Þau komu til Íslands í mars árið 2017 og skírðust til kristinnar trúar á meðan þau dvöldu hér. Þau voru send héðan til Þýskalands í nóvember á síðasta ári.
Yfirvöld í Þýskalandi gáfu þeim endanlega synjun og og tilkynntu þeim fyrirhugaðar brottvísanir í lok september á þessu ári. Þau geta ekki snúið til heimalanda sinna sem þau flúðu á sínum tíma þar sem þau eru orðin kristin og neyddust því til þess að dvelja í ónefndum skógi í Frakklandi.
Toshiki segir að mál þeirra sé ekki leyst en núna þurfi þau að minnsta kosti ekki að sofa í kuldanum. Þá bætir hann því við að 300 þúsund íslenskar krónur hafi þegar safnast fyrir fjölskylduna.