Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur segir klám afar mismunandi sem gæti verið ástæðan fyrir því að umræðan um það er eldfim. Þetta kom fram í Síðdegisútvarpinu á RÚV.
Grein í Fréttablaðinu eftir fyrrverandi klámfíkil vakti mikla athygli í gær. Guðmundur Kristján Jónsson, útskriftarnemi í skipulagsfræði við University of Waterloo og pistlahöfundur, sagði klámneysluna hafa skilið sig eftir nær getulausan, þunglyndan, svefnvana og ófæran um að standa undir væntingum í rúminu.
Sjá einnig: Opnar sig um klámfíkn fortíðarinnar
Sigríður ítrekaði í Síðdegisútvarpinu að klám og klámfíkn sé alls ekki svarthvítt. „Kynfræðingar eru svolítið ósammála því að það séu komnar upp sérstakar klámfíknimeðferðarstöðvar, eins og hafa poppað upp eins og gorkúlur í Ameríku.“
Spurð hvort að allt klám sé hræðilegt segir hún að klám sé ótrúlega breiður hlutur. „Það er t.d. verið að framleiða feminískt klám sem á að byggja á góðum launum, samþykki og að fólk sé að gera þetta að því að það vill gera þetta, á sínum forsendum,“ segir hún.
Það er verið að framleiða allskonar klám undir allskonar formerkjum. 95% af því sem við sjáum er svolítið ens og McDonalds, hamborgari sem myglar ekki á sex árum, hefur takmarkað næringargildi og þú veist ekki alveg hvað er í honum.
Hún segir afar misjafnt hvers vegna fólk notar klám.
„Fólk er annars vegar að nota klám í sjálfsfróun og pör að nota þetta í upphitun. Þannig heyrist mér flestir nota klám,“ segir hún.