Flestir Alþingismenn landsins halda með Liverpool. Þetta kemur fram í könnun sem Nútíminn framkvæmdi á dögunum.
Nokkrir þingmenn sendu skemmtileg svör. Hér koma nokkur:
Oddný G. Harðardóttir Samfylkingu:
Eini leikurinn í ensku knattspyrnunni sem ég hef farið á er heimaleikur Leeds á móti Nottingham Forest vorið 1999. Leeds vann þann leik og mér fannst stórkostlegt að fylgjast með 42 þúsund manns syngja eins og einn maður hvatningasöngva til liðsins síns. Maðurinn minn heldur með Leeds en eldri dóttirin með Liverpool og sú yngri með Manchester Utd. Til að halda samkomulagi á heimilinu sagðist ég halda með Arsenal en þar sem að eiginmaðurinn hefur gefið mér húfur, boli og stuttbuxur merktum Leeds í gegnum tíðina hef ég oftar hugsað til Leeds en annarra liða í ensku knattspyrnunni. Það er samt einungis vegna þessa merkta varnings en ekki vegna sérstaks áhuga á ensku knattspyrnunni.
Steinunn Þóra Árnadóttir, Vinstri græn:
Hér verð ég að skila auðu þar sem ég held ekki með neinu liði í enska boltanum. Hef raunar aldrei haldið með neinu liði þegar kemur að fótbolta. Á því kann þó að verða breyting í framtíðinni þar sem sonur er nýfarinn að æfa fótbolta af kappi með 8. flokki Vals.
Össur Skarphéðinsson Samfylkingu:
Ég er gamall botnlangi Liverpool, en bjó svo í Norwich, raunar mitt í iðu fótboltakjarnans rétt hjá Carrow Road þar sem Kanarífuglarnir hafa höfuðstöðvar. Þá festi ég mikla ást við þá líka, og drakk á fótboltakrám þeim til heilla. Það var auðvelt á þeim tíma. Liðin voru í sitt hvorri deildinni, og auðvelt að fagna baráttu Liverpool að meistaratitli og slagsmálum Kanarífuglanna við að komast upp um deild. Það eru heldur ekki miklir áreksrar í dag. Ég get fagnað bæði baráttu Liverpool á toppnum, og endalausum sigrum Norwich við að halda sér uppi í deildinni. Sigrar á báða bóga og ég fagna á báðum endum – yfirleitt!
Brynjar Níelsson Sjálfstæðisflokki:
Það er að verða hlutastarf að svara spurningum Nútímans. Ég hef haldið með Tottenham Hotspurs síðan 1966. Veit ekki af hverju en sennilega hefur orðið „hotspurs“ heillað mig. Guðlaugur Þór, samflokksmaður minn, heldur að ástæðan sé sú að liðið spili í náttfötum. Hvað sem því líður hefur þetta uppáhaldslið mitt ekki veitt mér margar ánægjustundir.
Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki:
Hvers konar spurning er þetta? Það er bara eitt lið í enska boltanum og við skoruðum 14 mörk í síðasta leik!
Helgi Hrafn Gunnarsson Pírötum:
Ég fylgist ekkert með enska boltanum og rétt þekki örfá liðsnöfn. Eina skiptið sem ég hef haldið með fótboltaliði svo ég muni var í heimsmeistarakeppninni í sumar, og þá hélt ég með Argentínu vegna þess að það var eina spænskumælandi landið eftir á þeim tíma sem ég ákvað að halda með liði.
Líneik Anna Sævarsdóttir Framsókn:
Á mínu heimili er mikill fótboltaáhugi og sérstaðan er sú að fjölskyldumeðlimir halda ekki allir með sama liðinu heldur með Ipswich, West Ham, Tottenham og Liverppool. Ég hef hins vegar ákveðið að vera á miðjunni og vera hlutlausi aðlinn í þessu máli og held því ekki með neinu liði í enska boltanum – en alltaf með Leikni Fáskrúðsfirði.
Brynhildur Pétursdóttir Bjartri framtíð:
Ég hef lítinn áhuga á enska boltanum og held ekki með neinu liði. Get þó viðurkennt að það hlakkar í mér þegar rándýr lið eru niðurlægð svo sem þegar Manchester United tapaði fyrir MK Dons. Tengdapabba fannst þetta reyndar ekkert fyndið.
Karl Garðarsson Framsókn:
Leeds United – í gegnum súrt og sætt í 40 ár. Yfirleitt erfiðir tímar en það gerir mann bara sterkari. Billy Bremner, Alan Clarke og Peter Lorimer voru hetjur æsku minnar.
Jóhanna María Sigmundsdóttir Framsókn:
Ég er fylgist lítið með þessu en er rosalega flink í að telja niður leiktímann og á meðan aðrir fagna marki þá fagna ég hálfleik. Held ekki sérstaklega með einu liði en gjörsamlega get ekki Arsenal, því má segja að ég haldi alltaf með liðinu sem er að spila gegn Arsenal hverju sinni.