Það má segja að það ríki stríðsástand á Keflavíkurflugvelli þessa dagana en þar eigast við íslenskir og erlendir leigubílstjórar. Rifrildi og atvik sem enda næstum því með handalögmálum eru orðin daglegur viðburður í leigubílaröðinni fyrir utan flugstöð Leifs Eiríkssonar og hefur meiri hiti færst í átökin eftir að meintur nauðgari var handtekinn þar um daginn.
Íslenskir leigubílstjórar sem Nútíminn hefur rætt við vilja meina að þeir erlendu séu að svíkja farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll og séu að rukka töluvert hærri gjöld en gengur og gerist. Þá hafi þeir neitað að keyra farþega til Keflavíkur þar sem um töluvert styttri túr sé að ræða og að þeir vilji einungis keyra fólk til Reykjavíkur svo hægt sé að rukka meira.
„Þeir sitja eins og úlfar fyrir utan túristastaðina, flugvellina og miðbæinn á kvöldin – flestir óskandi sér að það komi ekki Íslendingar í bílinn til sín“
Einn af þeim sem hefur fylgst vel með „ástandinu“ á Keflavíkurflugvelli er leigubílstjórinn Friðrik Einarsson en hann heldur úti X-aðganginum (Twitter) Taxí Hönter en þar hefur hann birt fjölmörg myndskeið og ljósmyndir sem gefa örlitla innsýn inn í hina daglegu árekstra umræddra leigubílstjóra. Einhver af myndskeiðunum sýna Friðrik sjálfan eiga í rökræðum við erlenda leigubílstjóra og enda sum þeirra nánast með átökum.
Rukka mest fyrir minnst
Friðrik segir í samtali við Nútímann að erlendir leigubílstjórar hafi yfirtekið leigubílaröðina – flestir þeirra kunni ekki stakt orð í íslensku og að meirihlutinn gefi farþegum sínum enga verðhugmynd og reyni að fá sem mest fyrir minnst.
Í myndskeiðinu hér fyrir neðan sést hvar Friðrik reynir að ræða við erlendan leigubílstjóra sem ætlaði að rukka 3.000 kr.- fyrir að keyra farþega frá Reykjavíkurflugvelli og að BSÍ. Um er að ræða rúman kílómeter en samkvæmt Google Maps tekur tæpar 4 mínútur að keyra frá flugvellinum og á BSÍ.
Hópast í kringum þá sem gagnrýna
„Þegar ég byrjaði að keyra farþega til og frá Keflavíkurflugvelli að þá kynntist ég fjölmörgum Íslendingum sem þar starfa sem leigubílstjórar. Þeir sýndu mér hvað mætti og hvað mætti ekki gera – þessar óskrifuðu reglur urðu til þess að þarna varð til samfélag manna sem pössuðu upp á hvorn annan og við unnum allir saman þó svo að við værum að keyra í sitthvoru lagi,“ segir Friðrik sem vill meina að það hafi allt hætt með tilkomu erlendra leigubílstjóra sem komu í hópum eftir að nýju leigubílalögin voru samþykkt.
„Did you kick me?“
„Þessir menn sem höfðu verið að siða mig til þarna í byrjun þeir voru allt í einu hvergi sjáanlegir. Ég sá að þeir sátu bara stjarfir inni í leigubílunum sínum og sögðu ekkert. Mér fannst það skrítið og fór því að spyrja hvað væri málið og þá kom í ljós að þeir voru bara logandi hræddir við þessi útlendinga. Ef þeir sögðu eitthvað að þá var kominn hópur í kringum þá af mönnum frá Sómalíu, Afganistan og Marokkó. Þeir þora ekkert að segja neitt lengur af ótta við þá,“ segir Friðrik og bætir við að hann skilji þessa leigubílstjóra. Það sé ekkert djók að lenda í útlendingunum.
Réðst á Friðrik
Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá þegar erlendur leigubílstjóri sparkar í Friðrik þegar hann reynir að benda grunlausum viðskiptavinum á það að umræddur leigubílstjóri rati ekki á bílaleiguna sem var í næsta húsi.
Um atvikið segir Friðrik:
„KL01 að nóttu og hann reynir að velta stutta túrnum yfir á Arabískan bílstjóra fyrir aftan sig, ég er bara nei gæskur, ertu ekki með GPS (googlemaps!)….Nei, hann lifir á að rata bara eftir minni í allri-RVK eftir 2 ár í landinu! Svona er þetta búið að vera í 24/7 í 230 daga!“
Friðrik er engann veginn sáttur við erlenda leigubílstjóra frá City Taxi og Hopp. Segir þá ræna viðskiptavini sína um hábjartan dag og að þeir keyri óhikað á stórhátíðartöxtum þó svo um enga stórhátíðardaga sé að ræða. Þá sé ekkert eftirlit með þeim haft en Friðrik vill meina að það sé ISAVIA sem eigi að sjá um það að allt fari vel fram fyrir utan flugstöðina. Það hafi þeir ekki gert nema bara í einhverri mýflugumynd. Þeir sem hafi verið sendir til þess að skikka málin séu bara ungir drengir sem vinna í kerrunum uppi á flugvelli.
„Á ákveðnum tímum þarna uppi á Keflavíkurflugvelli eru 8 af hverjum 10 leigubílstjórum af erlendu bergi brotnir og á meðan villta vestrið fær að ráða að þá geta farþegar sem vantar leigubíl lent í því að vera ofrukkaðir eða rændir, það er bara þannig,“ segir Friðrik sem líst ekki á blikuna og vonar að ISAVIA taki í taumana á leigubílaakstri á flugvellinum áður en allt fer til andskotans.