Flugvél með tugi farþega fórst í São Paulo-ríki í Brasilíu í dag en þarlendir fjölmiðlar greina frá því að 62 hafi verið um borð í vélinni sem er skráð á VoePass-flugfélagið. Slökkvilið borgarinnar staðfesti að flugvélin hafi brotlent í borginni Vinhedo en frekari upplýsingar hafa ekki fengist.
Skelfilegt myndsjkeið sem deilt var af GloboNews sýnir flugvélina snúast stjórnlaust í hringi á meðan hún hrapaði til jarðar.
„VoePass hefur sett í gang allar neyðaráætlanir sem miða að því að hlúa að þeim sem bæði áttu í hlut og þeim sem áttu ástvini um borð. Það hefur enn ekki verið staðfest hvernig slysið átti sér stað eða hver staða farþeganna um borð er,“ segir í yfirlýsingu frá flugfélaginu sem gefin var út nú fyrir skömmu.
Skrúfuþota með 68 sæti
Flugvélin var á leið frá Cascavel til Guarulhos þegar hún fórst en myndefni sem brasilískar fjölmiðlar hafa birt og deilt á samfélagsmiðlum sýna eld og reyk á gríðarstóru svæði á jörðu niðri og þá sést reykur stíga upp frá því sem talið er vera skrokkur flugvélarinnar.
Infraero, sem eru flugmálayfirvöld í Brasilíu, gátu ekki staðfest neitt þegar AP-fréttastofan sóttist eftir því. Samkvæmt brasilísku flugmálastofnuninni (Anac) var flugvélin ATR-72-500 skrúfuþota með 68 sæti. Hún er framleidd af franska fyrirtækinu ATR, sem er eitt af stærstu flugvélaframleiðendum í heiminum.
Þotan getur flogið í hámarkshæð 10.000 feta með hámarkshraða 510 km/klst.