Foreldrar barna og unglinga sem hafa lesið bókina Gæsahúð fyrir eldri – Villi vampíra virðast ekki hafa haft hugmynd um að þar væri meðal annars sagt frá því þegar unglingsdrengur reynir að þvinga fjórtán ára stúlku til að hafa samfarir við sig.
Bryndís Kolbrún Sigurðardóttir vakti athygli á málinu á Facebook í dag og deilir nokkrum blaðsíðum úr bókinni. Þar hvetur hún foreldra til að vera meðvitaða um hvað börnin þeirra séu að lesa. Bókin er fáanleg á fjölmörgum skólabókasöfnu og á heimasíðu útgáfunnar Tinds kemur fram að hún sé fyrir tólf ára og eldri.
Fjölmargir hafa skrifað athugasemd við fréttina og virðist innihald bókarinnar koma mörgum verulega á óvart. Þar á meðal eru foreldrar barna sem hafa lesið bókina, til að mynda í heimalestri í skólanum. Þá töldu sumir að um draugasögu væri að ræða.
Færslu Bryndísar er meðal annars deilt á Facebook-síðu Druslugöngunnar. Þar eru starfsmenn bókasafna grunnskólanna og annarra bókasafna hvattir til að fara vandlega yfir það efni sem fær pláss í hillunum hjá þeim.
„Það er bæði óábyrgt og skaðlegt að lesefni sem þetta sé aðgengilegt, því viljum við beina til þeirra að fjarlægja þessa bók strax. Bókasöfn eiga að vera fræðandi, skemmtileg og gagnleg,“ segir í færslunni.