Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir Sjálfstæðisflokkinn líklega vera að njóta góðs af útspili stjórnarandstöðuflokkanna þess efnis að þeir muni kanna möguleika á því að mynda meirihlutastjórn að loknum kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur samkvæmt nýjustu tölum.
Þetta kom fram í beinni útsendingu á RÚV en Vísir greinir frá.
„Það er athyglisvert að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn fær góða kosningu. Ég held að skýringin á þessu sé fyrst og fremst Píratabandalagið sem menn ætluðu að mynda hérna og þetta er svona vörn við því. Menn hugsuðu „við getum ekki gert neinar rósir. Við verðum að koma í veg fyrir það“ og Sjálfstæðisflokkurinn nýtur örugglega góðs af því,“ sagði Benedikt í beinni útsendingu á RÚV.
Ásta Guðrún Helgadóttir, oddviti Pírata í Reykjavík suður, sagðist ósammála þessu.
„[H]eld ég að þetta hafi fallið vel í geð hjá flestum. Það sem við vorum að reyna að gera var að reyna að mynda skýrari línur í íslenskum stjórnmálum og reyna að búa til ákveðið alternatív eins og hefur verið gert á Norðurlöndunum,“ sagði Ásta.
„Við reyndum að gera eitthvað nýtt. Við reyndum að bjóða upp á skýra valkosti. Við reyndum að stilla þessu þannig upp að við myndum þá allavega vera samstíga í þessu og ég tel það bara hafa verið heiðarlegt,“ bætti hún við.