Forsætisnefnd Alþingis hefur staðfest niðurstöður siðanefndar þingsins þess efnis að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata hafi brotið siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokssins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þórhildur lét ummælin falla í sjónvarpsþættinum Silfrinu í febrúar á síðasta ári. Hún sagði að „rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“ Ásmundur kvartaði í kjölfarið til forsætisnefndar þingsins sem vísaði málinu til siðanefndar.
Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ummæli hennar um Ásmund, einkum ummæli um að rökstuddur grunur væri uppi um refsiverða háttsemi hans, bryti gegn siðareglunum.
Álit forsætisnefndar verður birt á vef Alþingis í dag en það var afgreitt í forsætisnefnd á föstudaginn, degi eftir að þingstörfum lauk.