Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fékk skurð á enni og brákað nef eftir að hann féll í yfirlið eftir heitt bað í gærkvöldi. Guðni segir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
„Slysin gera ekki boð á undan sér en fiskisagan flýgur,“ segir hann.
Heitt og notalegt bað í gærkvöldi reyndist aðeins of heitt og notalegt; að því loknu leið yfir ykkar einlægan og auðvitað tókst manni að lenda það harkalega að af hlaust skurður á enni og brákað nef.
Guðni þakkar starfsfólki á slysadeild kærlega fyrir saumaskap og aðgæslu. „Og líka þeim sem fréttu af heimsókn þangað og vildu vita hvernig líðanin væri,“ segir hann.
„Hún er góð þótt glögglega megi greina merki byltunnar eins og sjá má á myndum af móttökum og heimsóknum dagsins. Skemmtilegir og fróðlegir viðburðir voru á Bessastöðum, um þá má fræðast á heimasíðunni www.forseti.is.“
Kæru vinir,slysin gera ekki boð á undan sér en fiskisagan flýgur. Heitt og notalegt bað í gærkvöldi reyndist aðeins of…
Posted by Forseti Íslands on Fimmtudagur, 12. október 2017