Auglýsing

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur stígur tímabundið til hliðar

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur stigið tímabundið til hliðar á meðan þau mál sem komið hafa upp í tengslum við Orku náttúrunnar verði skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjarna.

Áslaug Thelma Einarsdóttir kvartaði fyrst undan framkomu framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar fyrir einu og hálfu ári en hann segist hafa frétt af framkomunni í síðustu viku. Hún segir uppsögn sína hafa verið tilefnislausa og ætlar að sækja rétt sinn. Þetta sagði Áslaug í pistli á Facebook-síðu sinni í dag.

Málið varð opinbert í síðustu viku þegar Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar, birti pistil á Facebook síðu sinni um Bjarna Bjarnason, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Bjarna Má Júlíusson, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar (ON). Í færslunni sagði Einar að forstjóri OR hefði lagt blessun sína yfir mjög óviðeigandi hegðun framkvæmdastjóra ON í garð starfsfólks.

Áslaug útskýrir í pistli á Facebook-síðu sinni hvernig forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur vissi að óviðeigandi framkomu framkvæmdastjóra ON í marga mánuði en í síðustu viku fullyrti hannað hann hefði frétt af framkomunni á þriðjudaginn í síðustu viku, degi áður en Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu, birti pistilinn á Facebook sem hrinti af stað atburðarás sem endaði með uppsögn framkvæmdastjóra ON.

„Í dag er búið að reka manninn sem rak mig fyrir það sem ég kom fyrst á framfæri fyrir 18 mánuðum. Það gerði forstjóri OR eftir að full vitneskja um framgöngu framkvæmdastjórans hans var kominn til allra yfirmanna hans og fulltrúa eigenda OR,“ segir Áslaug í pistli sínum.

Forstjórinn hafði þá haft 18 mánuði til að bregðast við. Þessu klappaði stjórnarformaðurinn svo fyrir opinberlega í fréttum og vitandi líklega bara hlið forstjórans.

Þarna vísar Áslaug í að Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, sagði stjórn fyrirtækisins bera fullt traust til forstjóra OR. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í kjölfarið að stuðningsyfirlýsingin væri ótímabær.

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur fullyrti í fjölmiðlum í síðustu viku að framkvæmdastjóri ON hafi aðeins orðið uppvís að einu atviki, sem snerist um að hann hafi sent óviðeigand tölvupóst á samstarfskonur sínar.  Áslaug segir þetta vera fráleita staðhæfingu og fullyrðir að forstjórinn hafi vitað allt um hegðun framkvæmdastjórans. „Sama hvernig á það er litið þá stendur ekki steinn yfir steini í því hvernig málinu og forsögu þess hefur verið stillt upp í fjölmiðlum af hálfu forstjóra OR,“ segir hún.

Áslaug var sagt upp störfum eftir að hafa kvartað ítrekað undan hegðun framkvæmdastjóra ON. Hún segist engar skýringar hafa fengið á uppsögninni og bendir á að hún hafi staðið sig vel í starfi. „Sem dæmi hefur í sífellu verið bætt á mitt borð nýjum verkefnum og nýlega heilli deild og kauphækkun í maí sem ég bað ekki um,“ segir hún.

Áslaug segist ætla að leita réttar síns af fullum þunga. „Í dag klukkan 14 geng ég á fund lögfræðings þar sem ég sé ekki að ON, Orkuveitan eða Reykjavíkurborg sýni nokkra viðleitni til að ræða frekar við mig og því síður að leiðrétta það tjón sem ég hef orðið fyrir – að vera rekin fyrir að gera rétt. Rekin fyrir að reyna að verja mig og samstarfskonur mínar,“ segir hún.

„Ég hef verið reið í viku og ég er ennþá reið. Reið vegna þess að hafa þurft að þola þessa ömurlegu framkomu yfirmanns, reið yfir því að stjórnendur OR koma ekki heiðarlega fram og reið yfir því að svo virðist sem eigendur fyrirtækisins sem vinna í umboði kjósenda, virðast ætla að láta sér í léttu rúmi liggja að jafnréttis gildi OR virðist ekki hafa neitt vægi þegar á hólminn er komið.

En ég vorkenni mér ekki og það á engin að gera. Ég ætlaði sannarlega aldrei að verða „þessi kona“. Hvað þá „konan sem var rekin“ og ég ætla ekki að láta þetta ömurlega mál skilgreina mig. En ef ég get með minni baráttu orðið síðasta konan sem var rekin vegna samtryggingar og karlrembu óhæfra karlstjórnenda þá tek ég þann titil stolt og berst áfram undir þeim merkjum.“

 
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing