Fyrirtækið Bland.is hefur ekki miklar áhyggjur af samkeppni við Facebook eftir kynningu þeirra á Marketplace, nýrri þjónustu þar sem notendur geta keypt og selt vörur á einfaldan hátt, líkt og Íslendingar þekkja af síðum eins og Bland.is.
Facebook hefur kynnt nýja þjónustu fyrir notendur sína sem ber nafnið Marketplace. Þar verður hægt að kaupa og selja hluti á auðveldan hátt en í fyrstu verður þjónustan aðeins í boði í Bandaríkjunum, Bretlandi, á Nýja-Sjálandi og Ástralíu
Sjá einnig: Facebook kynnir þjónustu, notendur kaupa og selja vörur á Marketplace
Gísli Jónsson, forstöðumaður vefsins segir í samtali við Nútíminn að Bland.is þurfi að vera á tánum þegar svona stórt fyrirtæki ætlar inn á markaðinn.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Facebook reynir fyrir sér svipuðum markaði og nefnir Gísli þar dæmi um þjónustu sem Facebook fóru af stað með árið 2007 en hættu stuttu síðar.
Eins og staðan er núna er um að ræða tilraun á enskumælandi mörkuðum. Við höfum auga með þessari tilraun Facebook en eins og staðan er núna höfum við nægan tíma til að vinna í okkar málum.
„Við erum ljósárum á undan Facebook á mörgum sviðum. Þetta hefur ekki áhrif á okkur í augnablikinu því þjónustan er ekki í boði á Íslandi,“ segir Gísli.
Gísli segir að til þess að Bland.is geti keppt við slíkan risa þurfi fyrirtækið að vinna að sínum styrkleikum og nefnir þar nokkur dæmi.
„Við sölu á bíl er nóg að slá inn bílnúmerið og við sjáum um að allar upplýsingar um bílinn frá bifreiðaskrá komi inn á síðuna. Sömuleiðis auðkennum við alla notendur sem kaupa og selja á Bland.is og ef þú lendir í vandræðum geturðu hringi í Bland.is. Þetta eru möguleikar sem Facebook mun aldrei geta boðið upp á,“ segir Gísli