Saksóknari í Noregi hefur ákært 26 ára karlmann fyrir kynferðisbrot gegn yfir þrjú hundruð drengjum. Maðurinn notaði meðal annars Snapchat til þess að nálgast drengina. Frá þessu er greint á vef Deutsche Welle.
Um er að ræða umfangsmesta kynferðisbrotamál í sögu Noregs. Maðurinn notaði Snapchat þannig að hann þóttist vera stúlka og lofaði drengjunum erótískum myndum gegn því að þeir myndu senda sér myndbönd af sér stunda sjálfsfróun.
Maðurinn starfaði sem fótboltadómari og framdi brotin á árunum 2011-2016. Þolendur hans voru á aldrinum 9-21 árs. Gunhild Lærum, lögmaður mannsins segir hann játa sök í meginatriðum, en hann á eftir að svara hverri ákæru fyrir sig.