Sindri Einarsson, frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vill að leyniþjónusta verði stofnuð á Íslandi, að eftirlit sé með öllu sem menn birta á internetinu og að allir múslimar séu hleraðir. Þetta kemur fram í grein sem Sindri birti í Morgunblaðinu á laugardag.
Sindri stefnir á fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Í greininni í Morgunblaðinu bendir hann á að lögreglan á Íslandi sé ekki búin undir hryðjuverkaárásir og að þingmenn þurfi að geria eitthvað í þeim málum.
Hann leggur til að erlendir þjálfarar frá leyniþjónustum Bandaríkjanna eða Bretlands séu fluttir til landsins og að Íslendingar stofni sína eigin leyniþjónustu. „Á tækniöld þarf að vera virkt eftirlit með öllu sem menn birta á netinu,“ segir hann.
Netið er alráðningarkerfi hryðjuverkasamtaka ISIS. Einnig þarf að hlusta á samskipti múslima (þeirra allra), sérstaklega á stöðum þar sem þeir hafa bænahald.
Sindri segir einnig að það þurfi að efla tollgæsluna og bendir á að hægt sé að byggja leynistaði innan gáma. „Í sumum tilfellum er um að ræða styttri gám að innanverðu en sýnist að utanverðu,“ segir hann.
Þá segir Sindri að refsingar fyrir vopnasmygl þurfi að herða þó hann viðurkenni að það kunni að skerða ákveðið frelsi fólks. „Í fimmta lagi þarf víkingasveit lögreglunnar að vera sýnileg á öllum stöðum þar sem fjöldi manna kemur saman,“ segir hann.
„Banna verður fjölmenn mótmæli og leyfi þarf að veita fyrir mótmælum þannig að lögregla geti til lengri tíma tryggt öryggi þeirra er mótmæli hafa.“