Davíð Oddsson er eini forsetaframbjóðandinn sem á eftir að svara boði Stundarinnar og Reykjavík Media um að taka þátt í kappræðum í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði klukkan átta á morgun. Allir hinir frambjóðendurnir hafa boðað komu sína.
Sjá einnig: Segja samfélagsmiðlar meira en þúsund orð? Fylgi forsetaframbjóðenda á samfélagsmiðlum
Sýnt verður frá kappræðunum í beinni útsendingu á Facebook og tekið verður við spurningum áhorfenda í gegnum Facebook og Twitter á meðan þær standa yfir. Myllumerkið #kosningastundin heldur utan um umræðuna en áhorfendur í sal geta komið spurningum á framfæri. Allir eru velkomnir.
Samkvæmt upplýsingum frá Stundinni var frambjóðendum boðið að taka þátt 3. júní síðastliðinn. Eins og fyrr segir hafa allir frambjóðendur boðað komu sína, nema Davíð.
Blaðamennirnir Jón Trausti Reynisson og Jóhannes Kr. Kristjánsson verða á staðnum og sannreyna (fact check) það sem frambjóðendur láta hafa eftir sér.
Áhugsamir geta fram að kappræðum sent inn spurningar til frambjóðenda á netfangið ritstjorn@stundin.is og með því að nota myllumerkið #kosningastundin á Facebook og Twitter. Ritstjórnir þessara miðla velja spurningar lesenda sem varpað verður fram á kappræðunum.
Rætt verður við frambjóðendur í tveimur hlutum og dregið verður í hópana í beinni útsendingu á Facebook-síðum Stundarinnar og Reykjavík Media í dag.