Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands segir að það komi vel til greina að gera lyfjaprófanir af handahófi inn á líkamsræktarstöðvum. Þá segir hann steranotkun stórt lýðheilsuvandamál hér á landi. Það er Rúv.is sem greinir frá þessu.
Í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur var í vikunni var fjallað ítarlega um steranotkun hér á landi. Þar kom fram að ávísunum á testósterón væri tvöfalt meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndum.
Í þættinum sagði Birgir að besta leiðin til að sporna við notkun stera væri að stofna samráðsvettvang með líkamsræktarstöðvunum til að samræma fræðslu og forvarnir. Við höfum fundað með líkamsræktarstöðvum og það eru fleiri fundir á dagskrá og það er eftirspurn eftir einhvers konar samhæfingu og samráðsvettvangi,“ sagði Birgir.
Hann sagði vel koma til greina að gera lyfjaprófanir á viðskiptavinum líkamsræktarstöðva. Rúv ræddi við forsvarsmenn líkamsræktarstöðva sem allir kváðust reiðubúnir í samstarf við Lyfjaeftirlitið. World Class var eina stöðin sem Rúv ræddi við sem lagðist gegn lyfjaprófunum.