Forsvarsmenn Bláa lónsins tilkynntu það í gær að ákveðið hafi verið að framlengja lokun á öllum starfsstöðvum í Svartsengi til og með 5. janúar. Samkvæmt tilkynningu frá þessum fjölsóttasta ferðamannastað landsins kemur fram að staðan verði þá endurmetin.
„Eldgosinu sem hófst við Sundhnúkagíga þann 18. desember er lokið skv. upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Sérfræðingar halda áfram að fylgjast náið með svæðinu og framgangi mála. Við lokuðum öllum starfsstöðvum okkar í Svartsengi tímabundið vegna þessa. Við höfum ákveðið að framlengja lokun til og með 5. janúar og verður staðan þá endurmetin. Haft verður samband við alla gesti sem eiga staðfestar bókanir á næstu dögum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu sem birt var á vefsíðu Bláa lónsins í gær.
„Við höldum áfram að fylgjast með stöðunni í nánu samráði við yfirvöld. Eldgosið við Sundhnúkagíga er nú fjórða gosið á Reykjanesskaga frá árinu 2021. Viðbragðsaðilar og yfirvöld eru vel undirbúin fyrir slíka atburði og vinna í skipulegu samráði við fremstu sérfræðinga landsins á þessu sviði,“ segir enn fremur.