Framsóknarmenn þurfa í annað skiptið frá árinu 1942 að færa sig úr græna herberginu í Alþingishúsinu. Allir flokkar sem sitja á Alþingi fá aðstöðu í húsinu og var nauðsynlegt að gera breytingar því einn þingflokkur bættist við eftir kosningarnar og stærðarhlutföll flokka breyttust milli þinga.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Vinstri græn og Framsókn skipta á herbergjum og fer síðarnefndi flokkurinn í gula herbergið. Þetta var einnig raunin eftir kosningarnar 2009 en þá varð þingflokkur Framsóknar að víkja þar sem hann var heldur fámennari en þingflokkur Vinstri grænna. Framsókn fékk átta þingmenn kjörna í kosningunum fyrir hálfum mánuði en Vinstri græn tíu þingmenn.
Líkt og fram kom í fréttum eftir kosningarnar árið 2009 voru framsóknarmenn ekki ánægðir með að þurfa að yfirgefa herbergið. Þeir urðu þó að gefa eftir þegar forsætisnefnd þingsins ákvað að þingflokkum yrði raðað í herbergi eftir stærð þeirra, líkt og kemur fram í Morgunblaðinu.
Sjálfstæðisflokkur verður áfram með herbergi sitt í gamla Alþingishúsinu og Björt framtíð með sitt í Skála Alþingis. Fyrrverandi herbergi Samfylkingarinnar í Skála hefur verið skipt í tvennt. Fær þingflokkur Pírata stærra herbergið og Viðreisn það minna. Samfylkingin fær herbergi í Skála sem Píratar höfðu áður.