Eins og frægt varð í lok árs í fyrra þá bað Snapchat-stjarnan Sólrún Diego fólk um að hætta að hafa samband við Frans, kærasta sinn, með fyrirspurnir sem tengjast henni. Frans hefur bæði þurft að svara aðdáendum Sólrúnar ásamt auglýsendum og öðrum sem þurfa að hafa samband við hana.
Til að svara kalli þjóðarinnar fékk Nútíminn Frans með í lið og bauð lesendum sínum að senda honum spurningarnar. Lesendur voru ekki lengi að taka við sér og hér koma svörin frá Frans.
Óli Gneisti spyr:
Elsku Frans, hver er munurinn á starfsemi RNA og DNA í frumum heilkjörnunga?
„Elsku Óli, gaman að byrja kynnin svona innilega. Eflaust það eina sem ég man úr líffræði er orðið deoxíríbósómkjarnsýra sem er víst DNA. Ætli RNA sé þá ekki bara bara ríbósójarnsýra? Frekari skil á þessum tveimur kjarnsýrum kann ég ekki, nema þó bara að DNA er erfðaefni manna eins og alþjóð veit.“
Baldur Friðberg spyr:
Hvernig fáum við frið á Kóreuskaga? Frans? Hvernig?
„Tvö orð: Dennis Rodman!“
Jónína Guðrún spyr:
Hver á þennan bústað? JÁ EÐA NEI!
“Haaa?”
Olga Möller spyr:
Það er eitthvað bank í ofninum… Hver á að laga það?
„Ég hef ekki náð að leysa þá ráðgátu frekar en Indriði“
Davíð Már spyr:
Er ekki Sólrún konan þín bara að ljúga þessu að fólk hafi hringt í þig? Flott falið markaðstrix til að auka umtal um hana sjálfa, nýútkomnu bókina hennar (meiri sala á bókinni) og gefa þér smá „Airtime“ í leiðinni?
„Jú klárlega, þú alveg gómaðir mig, þetta ristir þó aðeins dýpra! Hvað ef Sólrún er í raun ekki til og bara tilbúningur minn til þess eins að koma mér á framfæri, þetta er jú allt eitt stórt samsæri ekki satt?“
Þórhildur Ólafsdóttir spyr:
Við ákváðum að detta í það í stað þess að kaupa jólagjafir. Er það ekki í lagi?
„Ef um er að ræða dagdrykkju þá get ég samþykkt það.“
Inga spyr:
Hvar fæ ég eðal rúllukragapeysu fyrir karlmann?
„Þær allra bestu fást hjá þeim allra bestu í Húrra Reykjavík #ad #samstarf“
Sverrir Torfason spyr:
Veldu tvo áfangastaði af þessum sex sem þú myndir vilja eyða þremur vikum í: Indland, Indónesía, Thailands, Víetnam, Kambodía eða Singapore.
„Hvernig á ég að geta skipt 21 degi á milli tveggja landa, væri ekki nærra lagi að skipta 21 degi milli þriggja landa, það er allavega deiling sem gengur upp. En ef ekki á að taka fjárlægð á milli og tilheyrandi vesen þá myndi Indland og Indónesía. Annars er Víetnam og Kambódía eflaust praktískara landfræðilega.“
Jökull Logi spyr:
Sæll Frans. Stór aðdáandi hér! Ég vildi spyrja þig hvaða bækur þú hefur verið að lesa og hvort þú mælir með einhverri sérstakri til að lesa í jólafríinu?
„Sæll Jökull, ég er upp með mér! Ég er alls ekki nógu duglegur við lestur en var að ljúka við The Subtle Art of Not Giving a F*ck, mikil vonbrigði. Þá er ég nýbyrjaður á The Power of Habit og lofar hún góðu.“
Egill Bjarni spyr:
Ef þú myndir þurfa að borða vaxlit hvaða lit myndiru velja?
„Appelsínugult, sama lit og nammið sem ég myndi velja.“
Sigurður Ólafsson spyr:
Ertu búinn að sjá Star Wars The Last Jedi?
„Nei“